Allir í skýjunum yfir lendingunni

Mynd úr ROLIS-myndavél Philae af lendingarstaðnum á halastjörnunni þegar hún …
Mynd úr ROLIS-myndavél Philae af lendingarstaðnum á halastjörnunni þegar hún var á leiðinni niður í aðeins þriggja kílómetra hæð yfir yfirborðinu. ESA

Gríðarlegur léttir og gleði eru tilfinningarnar sem Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, upplifði þegar staðfest var að Philae hefði lent á yfirborði halastjörnunnar 67P/​Churyumov-Gerasimenko. 

„Ég var með hnút í maganum í hálftíma þegar þetta var að byrja. Svo var þetta gríðarlegur léttir eftir á eins og þegar maður vinnur eitthvað í íþróttum. Ótrúlegur léttir og gleði. Ég fékk kökk í hálsinn og langaði helst að fara að gráta en kunni ekki við það út af fólkinu sem var í kring. Maður er búinn að fylgjast með þessu svo lengi og vonað svo heitt og innilega að þetta tækist. Þetta tókst. Það eru bara allir í skýjunum og fólk felldi gleðitár í stjórnstöðinni í Þýskalandi. Eðlilega eftir tuttugu ára verkefni sem er loksins að ná hámarki og verða að veruleika,“ segir Sævar Helgi.

Fregnir hafa borist af því að skutlar sem eiga að halda Philae fastir á halastjörnunni hafi ekki virkað sem skyldi og að einhver vandræði hafi verið með samskipti við farið. Teymið sem stjórnar farinu reynir nú að finna lausnir til að skjóta skutlunum niður í yfirborðið. Beðið er eftir að fyrstu myndirnar berist frá Philae af yfirborðinu.

„Þeir staðfestu að skutlarnir fóru ekki niður en sáu samt merki um að þeir væru fastir á yfirborðinu. Geimfarið væri aðeins að renna til og frá. Nú bíðum við bara eftir myndum til að sjá hver staðan er. Þetta bendir að minnsta kosti til þess að Philae sé lent heill á húfi,“ segir hann.

Gæti enst fram í mars

67P/​Churyumov-Gerasimenko og geimförin tvö eru 520 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðinni á milli sporbrauta reikistjarnanna Mars og Júpíters. Þau eru um þrisvar og hálfum sinnum fjær sólinni en jörðin er.

Philae á að geta enst fram í mars ef allt gengur upp. Á næstu dögum, vikum og mánuðum mun farið gera ýmsar vísindatilraunir á yfirborðinu, taka myndir, efnagreina halastjörnuna og rannsaka innviði hennar. Það sem vekur helstan áhuga manna eru annars vegar lífræn efnasambönd sem menn vita að halastjörnur innihalda og hins vegar vatn. Vísindamenn hafa leitt líkum að því að hráefni til myndunar lífs og vatn sem er forsenda þess hafi borist til jarðarinnar með halastjörnum.

„Í raun og veru gætu halastjörnur verið fræ lífsins ef svo má segja því þær sáðu efnunum yfir allt saman og komu með vatnið sem er lífi nauðsynlegt. Við gætum hugsanlega átt líf okkar halastjörnum að þakka,“ segir Sævar Helgi.

Ekki hægt að komast nær uppruna sólkerfisins

Þegar vísindatilraunirnar byrja fást svör við því hvers konar lífræn efni halastjarnan inniheldur. Samanburður á vatninu sem er í ísnum á halastjörnunni við höfin á jörðinni er líka áhugaverður.

„Ein helsta ráðgáta vísindanna er hvernig í ósköpunum jörðin fékk allt þetta vatn sem er á henni. Philae á að reyna að varpa ljósi á það með að mæla samsetningu vatnsins á halastjörnunni og vatnsins á jörðinni. Það getur þá sagt til um hvort að halastjörnur séu að stórum hluta uppruni vatnsins á jörðinni,“ segir Sævar Helgi.

Þá hafa menn áhuga á að rannsaka hvort að efni halastjörnunnar hafi tekið einhverjum breytingum í gegnum tíðina. Halastjörnur eru í raun afgangsefni frá því þegar sólkerfið okkar myndaðist fyrir um 4,6 milljörðum ára.

„Ef efnið hefur ekkert breyst erum við þarna að skoða frumstæðasta efni í sólkerfinu, efnið sem reikistjörnurnar, öll tunglin og sólin náttúrulega líka urðu til úr. Það er ekki hægt að komast nær uppruna sólkerfisins en með því að rannsaka halastjörnur,“ segir Sævar Helgi.

Vísindamenn ESA fagna í stjórnstöðunni í Darmstadt þegar ljóst var …
Vísindamenn ESA fagna í stjórnstöðunni í Darmstadt þegar ljóst var að Philae hefði lent á halastjörnunni. AFP
Sævar Helgi Bragason
Sævar Helgi Bragason Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert