Fjarskiptafyrirtækið Hringdu hefur lokað fyrir aðgang að vefsíðunum Deildu og Pirate Bay en sýslumaðurinn í Reykjavík hefur sett lögbann á síðurnar. Forsvarsmenn Hringdu segja að lögbann muni breyta litlu.
Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur ákveðið að leggja lögbann, að beiðni STEF, á að Hringdu veiti viðskiptavinum sínum aðgang að vefsíðunum: www.deildu.net, www.deildu.com, www.piratebay.se, www.piratebay.sx og www.piratebay.org.
„Frá upphafi þessa máls hefur Hringdu mótmælt kröfum STEF enda telur fyrirtækið það ekki hlutverk fjarskiptafyrirtækja að ritskoða netumferð viðskiptavina sinna og benti m.a. á í málsvörn sinni að aðgangur að veraldarvefnum er skilgreindur sem grundvallarmannréttindi í tilskipun nr. 2009/140/EB hjá Evrópusambandinu.
Réttast hefði verið af STEF að beina lögbannskröfum sínum að rekstraraðilum ThePirateBay og Deildu.net í stað Hringdu og annarra fjarskiptafyrirtækja. Á það var einnig bent að margar aðrar sambærilegar vefsíður séu starfandi sem ekki var krafist lögbanns á og að öllum mögulegum hindrunum yrði auðvelt að komast framhjá,“ segir í fréttatilkynningu frá Hringdu.
Kristinn Pétursson, forstöðumaður sölu- og þjónustusviðs Hringdu, segir í fréttatilkynningu að að mati fyrirtækisins sé þetta lögbann algjörlega tilhæfislaust og í raun beiðni um ritskoðun á internetinu.
„Niðurstaðan er íslenskum neytendum verulegt áhyggjuefni og gæti gefið fordæmi fyrir frekari ritskoðun internetsins,“ segir Kristinn í fréttatilkynningu.
„Við teljum mikilvægt að höfundarréttur sé virtur en þetta er ekki rétta leiðin. Áætlað er að 20.000 heimili kaupi sér áskrift að Netflix og að hátt í 8.000 einstaklingar séu með áskrift að Spotify. Það segir okkur að Íslendingar vilja greiða fyrir afþreyingu. Á endanum snýst þetta allt um aðgengi” bætir Kristinn við að lokum.