Lendingarfarið Philae er farið í dvala á yfirborði halastjörnunnar 67P/Churyumov-Gerasimenko. Afl farsins er nær á þrotum en það heldur áfram samskiptum við móðurfarið Rosettu um sinn. Gleði ríkir þó hjá vísindamönnum evrópsku geimstofnunarinnar ESA því Philae tókst að senda gögn um allar tilraunirnar sem henni var ætlað að gera.
Handagangur var í öskjunni í stjórnstöð ESA í Darmstadt í Þýskalandi í kvöld og nótt. Samband náðist við Philae klukkan rúmlega 22 en ljóst var að kapphlaup yrði við tímann um hvort farið næði að senda gögn til jarðar áður en afl þess væri á þrotum. Þá kom í ljós að farið hafði framkvæmt skipanir stjórnenda sinna um að snúa sér en það var gert til þess að freista þess að snúa stærri sólarrafhlöðu í þá átt sem fær mest sólarljós.
„Við lyftum og snerum; lendingarbúnaðurinn lyftist um það bil fjóra sentímetra og við snerum um það bil 35 gráður,“ sagði Stefan Olamec, stjórnandi Philae, í kvöld.
Það sem meira var um vert var þó að mikið magn gagna úr tilraunum sem Philae hefur gert á halastjörnunni byrjaði að flæða til jarðarinnar eftir að sambandið komst á. Þar á meðal voru upplýsingar úr tveimur gasnemum um borð og frá bor sem átti að safna sýnum. Ekki er þó ljóst ennþá hvaða árangur borunin bar því ekki ert vitað hvort borinn náði niður í jarðveginn. Einnig byrjaði tilraun um sneiðmyndatöku af innviðum halastjörnunnar að senda gögn til jarðar. Síðustu orkudroparnir verða notaðir til að halda uppi sambandi við móðurfarið Rosettu til að halda áfram rannsóknum á innviðunum.
Um klukkan hálfeitt hætti farið að senda gögn vegna þess hversu lítil orka var eftir á rafhlöðum þess og fór í viðbragðsstöðu. Slökkt var á öllum tækjum en vísindamennirnir gátu þó haldið sambandi við farið um stund eftir það. Staðfest var að Philae hefði tekist að senda til jarðar gögn um allar þær rannsóknir sem henni var ætlað að gera á fyrsta stigi dvalar sinnar á halastjörnunni.
Sambandið rofnaði svo um klukkan 00:47. Hafa menn því líklega heyrt það síðasta frá Philae - í bili að minnsta kosti. Mögulegt er að farið ræsi sig aftur ef sólarstaðan á halastjörnunni breytist síðar og meira ljós fellur á sólarrafhlöður þess.
.@ESA_Rosetta I'm feeling a bit tired, did you get all my data? I might take a nap… #CometLanding
— Philae Lander (@Philae2014) November 15, 2014
My #lifeonacomet has just begun @ESA_Rosetta. I'll tell you more about my new home, comet #67P soon… zzzzz #CometLanding
— Philae Lander (@Philae2014) November 15, 2014