Evrópskir vísindamenn hafa komist að því að risavaxin svarthol í miðju vetrarbrauta snúast á samsíða ási þrátt fyrir að milljarðar ljósára skilji þau að í alheiminum. Þar að auki virðast snúningsásar þeirra samsíða uppröðun vetrarbrauta í alheiminum. Ekki er talið að um tilviljun sé að ræða.
Stjörnufræðingar við Liėge-háskóla í Belgíu notuðu VLT-sjónauka Evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli (ESO) í Síle til að rannsaka 93 svonefnd dulstirni. Það eru vetrarbrautir með afar virkum risasvartholum í hjarta. Slík svarthol eru umvafin snúningsskífum úr gríðarheitu efni sem jafnan berst í langa stróka út frá snúningsási þeirra. Dulstirni geta skinið skærar en allar stjörnurnar í hýsilvetrarbrautum þeirra samanlagt.
Dulstirnin dreifast yfir milljarða ljósára en þau eru frá þeim tíma þegar aldur alheimsins var um það bil þriðjungur af aldri sínum í dag.
„Það fyrsta sérkennilega sem við tókum eftir var að snúningsásar sumra dulstirna voru í beinni línu hver við annan, jafnvel þótt milljarðar ljósára skilji dulstirnin að,“ segir Damien Hutsemékers sem leiddi rannsóknina.
Stjörnufræðingarnir létu þó ekki staðar numið þar. Vetrarbrautir í alheiminum dreifast ekki jafnt þegar litið er yfir nokkurra milljarða ljósára fjarlægðir. Vetrarbrautirnar mynda nokkurs konar risavaxna þræði og kekki í kringum miklar eyður þar sem fáar vetrarbrautir er að finna. Þessi dreifing kallast stórgerð alheimsins.
Í ljós kom að snúningsásar dulstirnanna höfðu tilhneigingu til þess að vera í línu við þessa stórgerð. Tilheyri dulstirnin löngum þræði liggja snúningsásar svartholanna í miðju þeirra samsíða þræðinum. Að mati stjörnufræðinganna eru líkurnar á því að þessi beinlínuröðun sé tilviljun innan við 1%.
„Fylgnin milli stefnu dulstirnanna og stórgerðarinnar sem þau tilheyra er mikilvægur þáttur í líkönum af þróun alheimsins. Mælingar okkar eru fyrsta staðfestingin á þessari fylgni yfir mun stærri skala en hingað til hefur sést í venjulegum vetrarbrautum. Beinlínuröðunin í mælingunum, á skala sem er miklu stærri en líkön okkar segja fyrir um, gæti verið vísbending um að ýmsa þætti vanti í líkön okkar af alheiminum,“ segir Dominique Sluse við Argelander-Institut für Astronomie í Bonn í Þýskalandi og Liėge-háskóla.