Hlýnunin gæti valdið kuldakasti

Gervihnattamynd NASA sem sýndir lægðina sem færði vetrarveður yfir stóran …
Gervihnattamynd NASA sem sýndir lægðina sem færði vetrarveður yfir stóran hluta Bandaríkjanna. AFP

Fjölmargir íbúar á austurströnd Bandaríkjanna þar sem miklar vetrarhörkur hafa verið síðustu daga spyrja sig nú að því hvað hafi orðið af hnattrænni hlýnun. Þá hafa efasemdamenn um loftslagsbreytingar notað kuldann í áróðursstríði vestanhafs. Vísbendingar eru þó um að hlýnunin valdi kuldakastinu.

Í Buffaló í New York-ríki er útlit fyrir að snjókoma verði meiri á þremur dögum í borginni en á heilu ári undir venjulegum kringumstæðum. Hitastig í öllum fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna hefur einnig farið niður fyrir frostmark í óvenjumiklum kulda sem gert hefur. Þriðjudagsmorguninn var sá kaldasti á landsvísu frá árinu 1976.

Þrátt fyrir þessar vetrarhörkur er mögulegt að árið í ár verði það heitasta á heimsvísu frá því að hitastigsmælingar hófust árið 1880 að mati vísindamanna bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA og Haf- og loftslagsrannsóknarstofnunar Bandaríkjanna.

„Aðeins lítill hluti af yfirborði lands á jörðinni er að ganga í gegnum tiltölulega svalt ár og svo vill til að það er austurströnd Bandaríkjanna,“ segir Bob Henson, veðurfræðingur við loftslagsrannsóknarstofnunina NCAR í Boulder í Kóloradó.

Greinilega orðin vön hlýnandi veðurfari

Mögulegt er talið að hlýnandi veður valdi kuldanum vestanhafs núna. Stór hluti af hlýnun jarðarinnar á sér stað í höfunum. Atburðarásin nú hafi hafist með afskaplega miklum hlýindum í Kyrrahafi sem varð til þess að fellibylurinn Nuri myndaðist. Hann mjakaði sér í norðurátt og olli miklum hlýindum í Alaska og á norðurskautinu.

„Kalda loftið þurfti að fara eitthvað og það gerði það: niður til Bandaríkjanna,“ segir Kevin Trenberth, loftslagsfræðingur við NCAR. Hann rekur þessa þróun til þess að um fimm prósent aukning hafi orðið í magni vatnsgufu yfir höfunum miðað við tímabilið fyrir árið 1970. Hærra rakastigið knýi áfram fellibylji eins og Nuri og Hayan sem gekk yfir Filippseyjar í nóvember í fyrra.

Þá benda vísindamenn á þá staðreynd að meðaltalshlýnun síðustu hundrað ára sé ein gráða á Fahrenheit og hún dreifist ekki jafnt um alla jörðina. Því sé ólíklegt að fólk finni fyrir hlýnuninni. Óvenjuleg hlýindi í Alaska og norðanverðu Kyrrahafi fari langleiðina með að jafna út kuldann í öðrum hlutum Bandaríkjanna.

Tom Peterson, yfirvísindamaður við Haf- og loftslagsrannsóknarstofnunina, segir ennfremur að kuldaköst í Bandaríkjunum séu að verða fátíðari.

„Það er ljóst að ef fólk er að kvarta yfir kuldaköstum sem eru miklu vægari en þau sem voru á 8. og 9. áratugnum þá bendir það til þess að við séum orðin vön hlýrra veðurfari,“ segir Peterson.

Frétt NBC af kuldakastinu vestanhafs

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert