Grafín gæti framleitt hreina orku

Vetnisbíll í Japan. Grafín gæti mögulega gert efnarafala slíkra bíla …
Vetnisbíll í Japan. Grafín gæti mögulega gert efnarafala slíkra bíla mun skilvirkari í framtíðinni. mbl.is/afp

Undraefnið grafín gæti gert mönnum kleift að framleiða hreina kolefnislausa orku úr andrúmsloftinu áður en um langt líður. Eiginleikar efnisins gætu þýtt að hægt verði að nota það sem nokkurs konar síu fyrir vetnisatóm sem hægt yrði að brenna í fararskjótum framtíðarinnar.

Vísindamenn hafa komist að því að grafín, sem er efni gert úr kolefnisatómum og er aðeins eitt atóm að þykkt en tvö hundruð sinnum sterkara en stál, hleypir jákvætt hlöðnum vetnisfrumeindum, róteindum, í gegnum sig en engar gastegundir komast í gegnum það, þar á meðal vetnið sjálft.

Þessi eiginleiki gæti haft gríðarlega þýðingu þar sem að hann gæti stóraukið skilvirkni efnarafala sem búa til rafmagn beint úr vetni. Vonir manna standa til að þannig verði hægt að sía vetni beint úr andrúmsloftinu og brenna því til að framleiða rafmagn og vatn án nokkurra skaðlegra aukaafurða.

„Í andrúmsloftinu er ákveðið magn vetnis og þetta vetni endar hinum megin við grafínið í forðabúri. Síðan getur þú brennt vetninu í forðabúrinu í í sama efnarafal og búið til rafmagn,“ segir Andre Geim við Háskólann í Manchester á Englandi en hann hlaut Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 2010 fyrir rannsóknir sínar á grafíni.

Geim og félagar hafa birt niðurstöður rannsóknar sinnar á þessum eiginleika grafíns í tímaritinu Nature en enn sem komið eru þessar hugmyndir aðeins vangaveltur. Nú hefur hins vegar verið sýnt fram á að róteindir vetnis geta smogið í gegnum grafín en fram að þessu hefðu slíkar hugmyndir verið taldar hreinn vísindaskáldskapur. Hingað til hefur verið talið að það tæki róteind milljarða ára að komast í gegnum grafínhimnu vegna þess hversu þétt hún er ofin.

„Rannsókn okkur gefur að minnsta kosti leiðsögn og sönnun fyrir því að tæki af þessu tagi sé mögulegt og að það stangist ekki á við þekkt náttúrulögmál,“ segir Geim.

Frétt The Telegraph af mögulegum notum grafíns í framtíðinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert