Grafa undan loftslagsviðræðum

Sjálfboðaliði við loftslagsviðræður SÞ í Líma stendur við vegg sem …
Sjálfboðaliði við loftslagsviðræður SÞ í Líma stendur við vegg sem á er letrað „Fyndu fyrir loftslagsbreytingum núna“ á spænsku. AFP

Ástralska ríkisstjórnin hefur verið sökuð um að reyna vísvitandi að grafa undan loftslagsviðræðum Sameinuðu þjóðanna sem nú fara fram í Perú. Fulltrúar Ástralíu krefjast þess að gert verði bindandi alþjóðlegt samkomulag en slíkt fyrirkomulag myndi líklega útiloka þátttöku Bandaríkjanna og Kína, þeirra tveggja landa sem losa mest af gróðurhúsalofttegundum í heiminum.

Sérfræðingar telja að vænlegasta leiðin til árangurs í loftslagsmálum sé að samkomulag sem menn vonast til að skrifað verði undir í París á næsta ári feli það í sér að aðildarríki þess setji losunarmarkmið í landslög. Tilraunir til þess að gera bindandi alþjóðlegan samning myndu verða til þess að Kínverjar og Bandaríkjamenn segðu sig frá viðræðunum og þær færu út um þúfur. Einmitt af þessari ástæðu eru fulltrúar ástralskra stjórnvalda nú sagðir þrýsta á um alþjóðlega bindandi samkomulag.

Julie Bishop, utanríkisráðherra Ástralíu, hefur áður viðurkennt að Tony Abbott, forsætisráðherra, hafi í fyrstu sett henni stólinn fyrir dyrnar að taka þátt í viðræðunum í Líma. Hún er nú sögð vera þar undir eftirliti viðskiptaráðherra landsins sem á að gæta þess að hún gangi ekki of langt í að skuldbinda landið í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Bishop hefur haldið fast við það án bindandi samkomulags væru markmiðin sem sett yrðu lítið annað en vonir.

„Það lítur út fyrir að þau séu að reyna að setja ómöguleg skilyrði til þess að þau geti vísað til farsæls samkomulags í París sem misheppnaðs,“ segir Frank Jotzo, aðstoðarprófessor við Háskólann í Ástralíu.

Bandaríkin hafa samkvæmt alla tíð verið óviljug til að gangast undir alþjóðlegar skuldbindingar. Þau tóku ekki þátt í Kyoto-bókuninni á sínum tíma og Barack Obama, forseti, hefur lýst því yfir að hann muni ekki styðja slíkt alþjóðlegt samkomulag nú. Sérfræðingar telja að Kínverjar muni ekki skrifa undir ef Bandaríkjamenn gera það ekki. Lagalegt form samkomulagsins sé hins vegar ekki það sem skipti máli heldur hversu miklum samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda það skili heiminum. 

Ríkisstjórn Abbott hefur verið svarti sauðurinn á meðal vestrænna ríkja þegar kemur að afstöðu til loftslagsmála. Ástralía varð þannig fyrsta landið í heimi til að afnema kolefnisgjald eftir að því hefur á annað borð verið komið á. Þá hafa Ástralar neitað því að leggja nokkuð að mörkum til sjóðs Sameinuðu þjóðanna sem er ætlað að hjálpa þróunarríkjum að aðlagast loftslagsbreytingum og Abbott hefur reynt að leggja niður sjálfstæða stofnun um loftslagsmál á vegum ástralska ríkisins.

Frétt The Guardian af loftslagsviðræðunum og afstöðu Ástrala

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka