Blendingsflugvélar mögulegar

Flugvélar eru einhverjir mestu mengunarvaldar heims. Hægt væri að draga …
Flugvélar eru einhverjir mestu mengunarvaldar heims. Hægt væri að draga töluvert úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að gera þær sparneytnari. AFP

Til­raun­ir með flug­vél sem er búin blend­ings­vél sem eyðir þriðjungi minna eldsneyti en hefðbund­in flug­vél hafa verið gerðar á Bretlandi und­an­farna daga. Fram­far­ir í raf­hlöðutækni valda því að nú eygja menn mögu­leik­ann á því að knýja um­hverf­i­s­vænni flug­vél­ar með bæði raf­magni og eldsneyti.

Það eru vís­inda­menn við Há­skól­ann í Cambridge sem hafa staðið fyr­ir til­rauna­flugi með létta eins sæt­is flug­vél. Hún er búin blöndu af fjög­urra strokka stimp­il­vél og raf­magns­mótor. Vél­in not­ar bæði bens­ín og raf­magn í flug­taki og þegar hún klíf­ur hærra upp en þá er orkuþörf­in mest. Þegar hún er kom­in í flug­hæð er hægt að breyta still­ingu raf­mótors­ins þannig að hann hleður raf­hlöður sín­ar eða knýr vél­ina áfram til að draga úr eldsneyt­is­notk­un henn­ar líkt og þekkt er í blend­ings­bíl­um.

„Þangað til ný­lega hafa [raf­hlöður] verið of þung­ar og þær gátu ekki haldið nógu mik­illi orku. Með þróun betri liþínraf­hlaðna, svipuðum þeim sem er að finna í far­tölv­um, eru blend­ings­flug­vél­ar, þó það sé á litl­um skala, að verða mögu­leg­ar,“ seg­ir Paul Robin­son frá verk­fræðideild Cambridge-há­skóla.

Til­rauna­vél­in notaði um 30% minna eldsneyti en sam­bæri­leg vél sem er aðeins með bens­ín­vél. Hún flaug í nokkr­ar mín­út­ur í yfir 1.500 feta hæð. Verk­fræðing­arn­ir segja þó að enn sé tölu­verð bið þar til hægt verði að nýta þessa tækni í flug­véla­flota heims­ins enda þurfi frek­ari rann­sókna við. Það gætu jafn­vel liðið ein­hverj­ir ára­tug­ir áður en það verður mögu­legt.

Frétt For­bes af til­rauna­flugi með blend­ings­flug­vél

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert