Tilraunir með flugvél sem er búin blendingsvél sem eyðir þriðjungi minna eldsneyti en hefðbundin flugvél hafa verið gerðar á Bretlandi undanfarna daga. Framfarir í rafhlöðutækni valda því að nú eygja menn möguleikann á því að knýja umhverfisvænni flugvélar með bæði rafmagni og eldsneyti.
Það eru vísindamenn við Háskólann í Cambridge sem hafa staðið fyrir tilraunaflugi með létta eins sætis flugvél. Hún er búin blöndu af fjögurra strokka stimpilvél og rafmagnsmótor. Vélin notar bæði bensín og rafmagn í flugtaki og þegar hún klífur hærra upp en þá er orkuþörfin mest. Þegar hún er komin í flughæð er hægt að breyta stillingu rafmótorsins þannig að hann hleður rafhlöður sínar eða knýr vélina áfram til að draga úr eldsneytisnotkun hennar líkt og þekkt er í blendingsbílum.
„Þangað til nýlega hafa [rafhlöður] verið of þungar og þær gátu ekki haldið nógu mikilli orku. Með þróun betri liþínrafhlaðna, svipuðum þeim sem er að finna í fartölvum, eru blendingsflugvélar, þó það sé á litlum skala, að verða mögulegar,“ segir Paul Robinson frá verkfræðideild Cambridge-háskóla.
Tilraunavélin notaði um 30% minna eldsneyti en sambærileg vél sem er aðeins með bensínvél. Hún flaug í nokkrar mínútur í yfir 1.500 feta hæð. Verkfræðingarnir segja þó að enn sé töluverð bið þar til hægt verði að nýta þessa tækni í flugvélaflota heimsins enda þurfi frekari rannsókna við. Það gætu jafnvel liðið einhverjir áratugir áður en það verður mögulegt.