Tölvusérfræðingar draga í efa að Norður-Kóreumenn hafi staðið að baki árásum á fyrirtækið Sony. Fjölda vandræðalegra tölvupósta hefur verið dreift opinberlega í kjölfar þess að tölvuþrjótar hökkuðu sig inn í netkerfi fyrirtækisins.
Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur kennt norður-kóreskum stjórnvöldum um árásina og lekann á tölvupóstunum. Ástæðan er sögð reiði þeirra vegna gamanmyndarinnar „The Interview“. Var meðal annars hætt við að taka myndina til almennra sýninga í Bandaríkjunum vegna hryðjuverkahótana sem bárust Sony, framleiðanda myndarinnar.
Fréttastöðin CNN hefur hins vegar eftir tölvusérfræðingum að þau gögn sem FBI hafi lagt fram sýni ekki fram á að Norður-Kóreumenn beri ábyrgð á árásinni. Þá efast þeir um að útsendarar þarlendra stjórnvalda hafi kunnáttuna til að hafa getað staðið fyrir árásinni.
Á meðal mögulegra sökudólga er tölvuþrjótagengið The Lizard Squad sem réðist á netkerfi leikjatölvanna Playstation og Xbox yfir jólin. Playstation er í eigu Sony. Truflarnir urðu á flugi forseta Sony Online Entertainment, John Smedley, eftir að því var haldið fram í tísti á Twitter-síðu gengisins að sprengja væri um borð í flugvélinni fyrr á þessu ári.
Þá hafa óánægðir fyrrverandi starfsmenn verið nefndir til sögunnar og fjöldi óháðra tölvuþrjóta sem hafa gert fjölda árása á Sony í gegnum tíðina.