Flest tilfelli krabbameins eru vegna hreinnar óheppni frekar en óheilbrigðs lífsstíls eða erfða. Handahófskenndar stökkbreytingar í DNA-erfðamengi þegar frumur skipta sér eru ástæðan í um tveimur þriðja krabbameinstilfella, meðan þriðjungur orsakast af ytri áhrifum, umhverfisáhrifum eða erfðum.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem vísindamenn við John Hopkins-háskólasjúkrahúsið í Bandaríkjunum gáfu út nýlega og breska blaðið The Guardian greinir frá.
Þeim mun oftar sem frumur skipta sér, þeim mun líklegra er að DNA-erfðakeðjan ruglist, sem getur leitt til aukinnar áhættu á krabbameini. Í rannsókninni kemur fram að þessi handahófskennda stökkbreyting eigi sér stað í 65% krabbameinstilfella.
„Öll tilfelli krabbameins eru tilkomin vegna blöndu af óheppni, umhverfinu og erfðum,“ segir Bert Vogelstein á John Hopkins-háskólasjúkrahúsinu. Meðhöfundur að rannsókninni, Cristian Tomasetti, einnig frá John Hopkins, segir að með þessu sjáist að um þriðjungur krabbameinstilfella sé vegna umhverfisþátta, sem geti meðal annars verið lífsstíll og mataræði.
Niðurstaða rannsóknarinnar sé sú að heilbrigt líf geti minnkað líkur á sjúkdómnum en aðrar aðferðir geti verið áhrifaríkari í baráttunni gegn honum. „Við ættum að einbeita okkur meira að því að finna leiðir til að finna krabbamein snemma, þegar það er á læknanlegu stigi,“ segir Tomasetti.