Margir kannast við timburmenn og eru þeir oft áberandi í kringum áramótin. Samkvæmt nýrri rannsókn Macmillan Cancer Support í Bretlandi er meðal Breti 315 daga ævi sinnar þunnur. En hver er besta lausnin við þessari tilfinningu sem fær fólk oft til þess að neyðast til þess að liggja upp í rúmi tímunum, jafnvel dögunum saman? Samkvæmt grein sem birtist á vef Telegraph er lausnin einföld, lítil dós af kóki.
Í greininni kemur fram að samkvæmt fjölmörgum stjörnum er það dós af Coca-Cola, eða „Svarti læknirinn“ og „Rauði sjúkrabíllinn“ sem kemur til bjargar. Má þar nefna þau Justin Bieber, Kate Moss, Pixie Geldof, Taylor Swift, Britney Spears og Tom Cruise sem hafa sést nýlega með kókdós daginn eftir veislur og skemmtanir.
Í grein í síðasta tímariti Vogue kemur fram að kók innihaldi fullkomið hlutfall sykurs og koffíns þegar fólk er þreytt og með lágan blóðsykur. Eiga stjörnur að hafa sagt að gosið í kókinu rói magann og að koffínið gefi manni aukna orku. Er vitnað í ónefnda ofurfyrirsætu sem segir kókið ómissandi þegar það kemur að skemmtanahaldi og segir að vinkona hennar drekki alltaf kók, með örlitlu vodka með, í morgunmat.
Þó svo að kók sé ekki markaðssett sem lausn við timburmönnum bendir blaðamaður Telegraph á að eiginleikar drykkjarins til þess að láta fólki líða betur sé ekkert nýtt. John Pemberton fann upp kók í Atlanta í Georgíu í Bandaríkjunum árið 1886. Pemberton var lyfsali og var drykkurinn tilraun hans til þess að venja sig af verkjalyfinu morfíni, en hann varð háður því eftir að hann slasaðist í þrælastríðinu.
Pemberton prófaði drykkinn á viðskiptavinum sínum og sló drykkurinn í gegn. Var drykkurinn kallaður „kraftaverk“ þar sem hann lagaði meðal annars höfuðverk og taugahvot samkvæmt auglýsingu.
Breskir næringarfræðingar eru ósammála um ágæti drykkjarins þegar það kemur að timburmönnum. Telegraph vitnar í næringarfræðinginn Claire Baseley sem segir að kók gæti komið sér vel til þess að vökva líkamann. „Þegar að maður er þunnur, þarf að vökva líkamann. Höfuðverkurinn er líklega afleiðing vökvaskorts. Eitthvað eins og kók inniheldur mikinn sykur og vökva sem vökva líkamann og gefa manni orku,“ segir Baseley.
Hún bætir þó við að til séu betri kostir en kók og nefnir hún vatn og íþróttadrykki eins og Gatorade.
Næringarfræðingurinn Melanie Brown er þó ekki eins hrifin af kókinu. „Blanda af sykri, koffíni, gosi og kulda lætur fólk halda að þynnkan sé að lagast,“ segir hún. „Kók er vökvi og svalar þorsta að ákveðnu marki en inniheldur ekki mikið af steinefnum. Fólk segir að gosið rói magann, en það eru engar sannanir til fyrir því.“