Frænka í fjarlægu sólkerfi

Kepler 438b er í um 470 ljósára fjarlægð, það þýðir …
Kepler 438b er í um 470 ljósára fjarlægð, það þýðir að það tæki jarðarbúa rúmlega átta milljónir ára að ferðast þangað miðað við þá tækni sem við búum yfir í dag. mynd/Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics

Vísindamenn sem og almennir áhugamenn um stjörnufræði eru mjög spenntir yfir fréttaflutningi af því að ný pláneta, sem nefnist Kepler 438b, hafi fundist sem þykir mjög lík jörðinni. Margir velta vöngum yfir því hvort þarna hafi loks fundist hnöttur þar sem líf gæti hugsanlega þrifist. Frænka jarðarinnar í fjarlægu sólkerfi.

„Þetta er skref í þá átt að reyna að finna aðra hnetti nálægt okkur, eða í vetrarbrautinni okkar, þar sem líf gæti hugsanlega þrifist,“ segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, í samtali við mbl.is.

Hann bætir við að í dag hafi fundist á bilinu 10-20 plánetur fyrir utan jörðina sem gætu mögulega verið lífvænlegar. Um er að ræða lífbelti sem eru þau svæði í sólkerfinu þar sem hitastigið er passlegt fyrir fljótandi vatn. 

Árið 10 sinnum styttra á jörðinni

„Kepler 438 er mjög nálægt sinni sól þannig að árið stutt; eru 38 dagar eða svoleiðis. Hún er líka mjög nálægt sinni stjörnu þannig að hitastigið er örugglega hærra heldur en á jörðinni. Ætli það sé ekki eitthvað í kringum 40-60 gráður,“ segir hann. 

Þá segir Sævar, að vegna þess hve nálægt Kepler 438 er sinni stjörnu þá sé snúningur plánetunnar, sem sé berghnöttur eins og jörðin, í kringum sjálfa sig sé bundinn. „Það er að segja, hún snýr alltaf sömu hliðinni að stjörnunni. Sem þýðir að annar helmingurinn er væntanlega hlýrri heldur en hinn,“ segir Sævar og bætir við að þetta séu einfaldlega vangaveltur.

Tæki átta milljónir ára að ferðast til Kepler 438b

Vísindamenn við miðstöð Harvard-Smithsonian í stjarneðlisfræði greindu frá uppgötvuninni á fundi Stjarnfræðifélags Bandaríkjanna í Seattle í gær. Einnig var greint frá fundi sjö annarra pláneta sem eru á lífbelti stjarna. 

Plánetan er í 470 ljósaára fjarlægð sem þýðir að það myndi taka jarðabúa yfir átta milljónir ára að ferðast þangað - með þeirri tækni sem við ráðum við í dag.

Sævar tekur fram að vísindamenn geti, út frá þeim upplýsingum sem þeir hafi, getið sér til um það hvernig aðstæður geti mögulega verið. Það sé hins vegar vitað að hnötturinn er stærri en jörðin og þar sé frekar mikil gufa. „Stjarnan sem hún snýst í kringum er rauð þannig að plönturnar þar eru örugglega rauðleitari heldur en plönturnar á jörðinni, sem eru grænar af því að sólin toppar í græna litnum,“ segir Sævar.

Þekkjum um 3.000 plánetur utan okkar sólkerfis

„Við vitum það að líf þarf að minnsta kosti á berghnöttum að halda í réttri fjarlægð til þess að geta þrifist. Þarna er bara kominn enn einn kandídatinn í það,“ segir hann og heldur áfram: „Ef það er vatn þarna á annað borð þá er það alveg pottþétt fljótandi og það er grundvöllur lífs.“ 

Sævar bendir á að Kepler-sjónaukinn hafi nú staðfest yfir 1.000 plánetur. „Þannig að við erum farin að þekkja hátt í þrjú þúsund aðrar plánetur utan okkar sólkerfis. Af þeim eru kannski innan við tuttugu hugsanlega lífvænlegar. Það gefur okkur allavega hugmynd um það að þessi tegund reikistjarna - reikistjörnur á stærð við jörðina okkar á réttum slóðum í sínu sólkerfi - séu nokkuð algengar, fyrst við erum að finna þetta svona hratt og svona fljótt,“ segir Sævar að lokum.

Sævar Helgi Bragason.
Sævar Helgi Bragason. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert