Fæði fólks sem býr á höfuðborgarsvæðinu er nær ráðleggingum um mataræði en þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðis. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem greint er frá í nýjasta tölublaði Læknablaðsins en tilgangur hennar var að kanna holdafar og mataræði íslenskra kvenna og karla með tilliti til búsetu enda hafi erlendar rannsóknir sýnt fram á tengsl á milli búsetu og líkamsþyngdar, ofþyngdar og offitu.
Rannsóknin var unnin upp úr gögnum úr landskönnun á mataræði Íslendinga 2010-2011 sem unnin var á vegum Embættis landlæknis í samvinnu við Matvælastofnun og rannsóknastofu í næringarfræði við HÍ.
Þannig kemur fram í niðurstöðum rannsóknarinnar að neysla fitu, mettaðra fitusýra og transfitusýra hafi verið minni innan höfuðborgarsvæðisins en utan þess. Meira hafi verið af trefjum og meira grænmeti í fæði fólks innan svæðisins. Fæði karla á höfuðborgarsvæðinu hafi þannig innihaldið meira af fjölómettuðum fitusýrum og trefjaefnum en í fæði karla utan þess. Í öllum tilfellum sé um tölfræðilega marktækan mun að ræða. Hins vegar reyndist minni munur á fæði yngri og eldri aldurshópa í þessari könnun en sambærilegri könnun árið 2002. Meðal annars neyslu gosdrykkja og sælgætis, en einnig ávaxta og grænmetis.
Rannsóknin bendir til þess að eldri konur innan höfuðborgarsvæðisins séu með marktækt minni líkamsþyngdarstuðul að meðaltali en konur utan þess en enginn munur var hins vegar á yngri konum. Þá var ekki marktækur munur á líkamsþyngdarstuðli karla eftir búsetu. Hvorki í yngri né eldri aldurshópi. Enginn marktækur munur var á fólki í þessum efnum eftir menntun.
„Tengsl líkamsþyngdarstuðuls við búsetu eru minni en í fyrri rannsóknum. Hlutfall heildarfitu, mettaðra fitusýra og transfitusýra er lægra í fæði á höfuðborgarsvæði en utan þess, og hlutfall trefja og fjölómettaðra fitusýra er hærra. Enginn munur er á sykurneyslu eftir búsetu. Minni munur er á mataræði eftir búsetu en í fyrri rannsóknum. Menntunarstig tengist lítið sem ekkert líkum á að fólk teljist yfir kjörþyngd hér á landi,“ segir að lokum.