Mögulegt er talið að ár leysingavatns sem myndast á Grænlandsjökli á sumrin stuðli eins mikið að hækkun yfirborðs sjávar og allar aðrar leiðir sem leysingavatn berst frá bráðnandi jöklinum. Þetta er niðurstaðan nýrrar rannsóknar vísindamanna frá Kaliforníuháskóla og bandarísku geimvísindastofnuninni NASA.
Áttatíu prósent af Grænlandi eru þakin ís sem hefur umtalsverð áhrif á yfirborð sjávar eftir því sem ísinn bráðnar. Erfitt er að rannsaka jökulinn á jörðu niðri og því eru vísindamenn enn að gera sér grein fyrir því hvernig leysingavatn kemst út í hafið. Rannsóknin er sú fyrsta sem kannar hvernig leysingavatn sem myndast á jöklinum á sumrin hagar sér.
Vísindamennirnir kortlögðu ár og læki á 5.600 ferkílómetra svæði sumarið 2012. Þeir höfðu sérstakan áhuga á að kanna hversu mikið leysingavatn yrði eftir á jöklinum og hversu mikið rynni til sjávar. Niðurstaðan var sú að nærri því allt vatnið endi í sjónum í gegnum sprungur.
Við rannsóknina voru meðal annars notaðir sérhannaðir fjarstýrðir bátar sem söfnuðu vatnssýnum úr yfirborðsvatni á jöklinum. Þannig gátu vísindamennirnir metið dýpt vatnsins á gervihnattamyndum.
Frétt á vef NASA um rannsóknina á leysingavatni Grænlandsjökuls