Repúblikaninn Ted Cruz er ný formaður þingnefndar sem hefur umsjón með störfum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Hann hafnar því að hnattræn hlýnun sé raunveruleg og segir mælingar síðustu fimmtán ára ekki styðja það sem hann kallar „svokallaða vísindakenningu“.
Vísinda-, geim- og samkeppnisnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings hefur umsjón með störfum NASA. Eftir að repúblikanar náðu völdum í báðum deildum þingsins hefur Texasbúinn Cruz verið skipaður formaður nefndarinnar. Árið 2013 reyndi hann meðal annars að skera niður fjárveitingar til NASA og hann hefur verið harður andstæðingur umhverfisstofnunar Bandaríkjanna, EPA.
Geimvísindastofnunin NASA sinnir meðal annars umfangsmiklum rannsóknum á jörðinni sem varða þær breytingar sem eru að verða á loftslagi hennar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Cruz hefur hins vegar hafnað því að þær eigi sér stað. Þannig sagði hann CNN í fyrra að „á síðustu fimmtán árum hefur engin hlýnun mælst“ sem styðji „svokallaða vísindakenningu“ um hnattræna hlýnun. Cruz hefur einnig stutt liðsmenn Teboðshreyfingarinnar sem vilja að sköpunarsaga Biblíu kristinna manna sé kennd í skólum sem vísindi í forvali repúblikana.
Af þessum sökum óttast ýmsir að Cruz reyni að skerða fjárveitingar til NASA. Í yfirlýsingu um áform sín fyrir stofnunina segir Cruz hins vegar að hann vilji að stofnunin snúi sér alfarið að kjarnahlutverki sínu sem sé að kanna geiminn og geri meira af því. Hann lýsti einnig óánægju sinni með að Bandaríkjamenn þurfi að reiða sig á rússneskar eldflaugar til að koma geimförum sínum til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar eftir að geimskutluáætlun Bandaríkjanna leið undir lok árið 2011.
„Staða Rússa sem hliðverðir Alþjóðlegu geimstöðvarinnar gæti ógnað getu okkar til að rannsaka og læra og hamlað getu okkar til að ná nýjum hæðum og deila nýjungum með frjálsum þjóðum alls staðar. Bandaríkin ættu að vinna með alþjóðlegum samstarfsaðilum okkar en ekki reiða sig á þá. Við ættum aftur að leiða geimkönnun í heiminum,“ segir í yfirlýsingu Cruz um NASA.
Uppfært 11:02, 16. janúar 2015: Fyrirsögn og inngangi fréttar var breytt þar sem því var haldið fram að Cruz sé sjálfur sköpunarsinni. Hið rétta er að hann hefur stutt frambjóðendur í forvali repúblikana sem vilja meðal annars að sköpunarsaga Biblíunnar sé kennd í skólum sem vísindi. Þá hefur faðir Cruz, presturinn Rafael Cruz, meðal annars sagt að fylgni sé á milli þróunarkenningar Darwins og kommúnisma.