Öldungadeild Bandaríkjaþings mun að líkindum greiða atkvæði í þessari viku um það hvort að loftslagsbreytingar séu raunverulega að eiga sér stað á jörðinni. Tillögunni er ætlað að neyða repúblikana sem afneita vísindunum að baki til þess að gangast við þeim skoðunum sínum opinberlega.
Óháði þingmaðurinn Bernie Sanders frá Vermont-ríki lagði tillöguna fram. Hún gengur út á að öldungadeildin viðurkenni að loftslagsbreytingar séu raunverulegar, þær séu af völdum manna og að nauðsynlegt sé að Bandaríkjamenn breyti orkukerfi sínu til að draga úr vægi jarðefnaeldsneytis og auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa.
Tillagan er ein af mörgum breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram við frumvarp um hina umdeildu Keystone XL-olíuleiðslu sem fyrirhugað er að leggja frá Kanada yfir Bandaríkin. Mitch McConnell, leiðtogi meirihluta repúblikana í öldungadeildinni, segir að umræða muni fara fram um allar tillögurnar.
Engar líkur eru á því að tillaga Sanders verði samþykkt enda hefur forysta repúblikanaflokksins um árabil neitað því að loftslagsbreytingar eigi sér stað og hefur staðið gegn aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig skrifaði til dæmis Jim Inhofe, formaður vísindanefndar öldungadeildarinnar, bók árið 2012 sem bar titilinn „Stærsta gabbið: hvernig samsærið um hnattræna hlýnun ógnar framtíð þinni“.
Sanders viðurkennir enda að tilgangurinn sé ekki að fá tillöguna samþykkta heldur að draga þessar skoðanir repúblíkana fram í dagsljósið.
„Það mikilvæga er að ég held að við séum á mjög hættulegri braut sem þjóð þegar að meirihlutinn í bandaríska þinginu er tilbúinn til að hafna vísindum. Mér finnst það vera mikilvægt að repúblikanar segi kjósendum sínum, að þeir segi bandarísku þjóðinni og segi heiminum hvort þeir fallist á vísindin eða ekki,“ segir Sanders í samtali við The Guardian.