Mannkynið færist nær dómsdegi

Dómsdagsklukkuna vantar nú þrjár mínútur í miðnætti. Á myndinni er …
Dómsdagsklukkuna vantar nú þrjár mínútur í miðnætti. Á myndinni er hins vegar venjuleg klukka. AFP

Aðgerðaleysi í loftslagsmálum og möguleikinn á kjarnorkustríði eru ástæða þess að mínútuvísir dómsdagsklukkunnar táknrænu hefur verið færður nær miðnætti. Nú vantar klukkuna þrjár mínútur í miðnætti og hefur hún ekki verið svo nærri því frá því í kalda stríði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.

Söguna bak við dómsdagsklukkuna má rekja aftur til ársins 1947 þegar hópur kjarnorkuvísindamanna kom saman í Chicago og útbjó „dómsdagsklukku“, sem átti að gefa til kynna hversu nærri heimurinn stæði hyldýpi kjarnorkustyrjaldar, eða „miðnættinu" í sögu mannkyns.

Nú hefur hópurinn sem stendur á bak við klukkuna ákveðið að færa vísinn nær miðnætti vegna stöðu heimsmála.

„Óheftar loftslagsbreytingar og kjarnorkuvopnakapphlaup sem hlotist hefur af nútímavæðingu risavaxinna vopnabúra valda í dag ótrúlegri og neitanlegri hættu við áframhaldandi tilvist mannkynsins,“ segir Kennette Benedict, framkvæmdastjóri Bulletin of the Atomic Scientists, hópsins sem heldur utan um klukkuna táknrænu.

Leiðtogar heims hafa brugðist í því að grípa til aðgerða nógu hratt eða með nógu afgerandi hætti til að vernda borgara heims fyrir hörmungum. Vísindamennirnir kalla eftir því að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda og að hætt verði að þróa kjarnorkuvopn áfram.

„Við erum ekki að segja að það sé of seint að grípa til aðgerða en glugginn til aðgerða er að lokast hratt. Það þarf að vekja heiminn af svefndrunga sínum og byrja að gera breytingar,“ segir Benedict.

Dómsdagsklukkuna hefur vantað fimm mínútur í miðnætti frá árinu 2012 en síðast þegar hana vantaði aðeins þrjár mínútur í var árið 1983 í kalda stríðinu. Minnst vantaði hana tvær mínútur í miðnætti árið 1953.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert