Vísindamenn NASA hafa búið til fyrsta ítarlega kortið af íslögum djúpt í Grænlandsjökli. Mælingarnar gera þeim kleift að aldursgreina nákvæmlega mismunandi hluta jökulsins og gera sér grein fyrir því hvernig hann mun breytast eftir því sem hann bráðnar af völdum hnattrænnar hlýnunar.
Grænlandsjökull er næststærsta ísþekja á jörðinni en vatnið sem er bundið í honum er nægilegt til að hækka yfirborð sjávar um sex metra. Ísinn hefur bráðnað verulega undanfarna tvo áratugi og hækkandi hitastig jarðar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda mun valda því að enn gangi á jökulinn á komandi árum. Vísindamenn rannsaka því ís frá mismunandi tímabilum í loftslagssögu jarðarinnar til að átta sig á hvernig jökullinn mun bregðast við breytingunum.
Til þess að kortleggja innviði jökulsins notuðu vísindamenn NASA radarmerki sem þeir sendu í gegnum ísinn. Fyrri rannsóknir höfðu kortlagt innri lög íssins en ekki eins ítarlega og nú hefur verið gert. Mælingarnar nú gera þeim kleift að aldursgreina ísinn.
Sérstakan áhuga hafa vísindamenn á því að bera ástand jökulsins nú saman við íslög frá Eemian-tímabilinu svokallaða fyrir 115.000-130.000 árum. Þá var hitastig jarðar svipað og það er nú. Radarmælingarnar gefa mönnum hugmynd um hvar þau lög er að finna svo hægt sé að taka sýni úr ísnum.
Upplýsingarnar auðvelda mönnum að gera spár um framtíðarbráðnun jökulsins og hvernig hún mun hækka yfirborð sjávar.
„Fyrir þessa rannsókn var gott líkan af ísþekjunni það sem var með núverandi þykkt og yfirborðshraða á hreinu. Nú geta þeir líka unnið að því að hafa söguna rétta sem er mikilvægt vegna þess að ísþekjur hafa langt minni,“ segir Joe MacGregor, jöklafræðingur hjá Texas-háskóla.