Sigldu inn á lífvænlegt svæði

Neptúnus. Margar fjarreikistjörnur hafa fundist sem eru gaskenndar eins og …
Neptúnus. Margar fjarreikistjörnur hafa fundist sem eru gaskenndar eins og Neptúnus en minni. NASA/JPL

Fjarreikistjörnur sem líkjast jörðinni gætu hafa verið mun líkari smávöxnum útgáfum af reikistjörnunni Neptúnusi fyrst eftir myndun þeirra. Ný rannsókn bendir til þess að mögulegt sé að slíkar reikistjörnur hafi myndast fjarri sólstjörnum sínum en nálgast þær með tímanum og tapað stærstum hluta lofthjúps síns. 

Rannsóknin bendir til þess að fjarreikistjörnur sem myndast fjarri svonefndum rauðum dvergum og eru á stærð við smávaxinn ísrisa eins og Neptúnus getu færst nær dvergnum vegna flóðkrafta. Þær gætu þá endað á lífvænlegu svæði í nágrenni sólstjörnunnar.

Talið er að 75% af sólstjörnum í alheiminum séu rauðir dvergar en það eru stjörnur sem eru svalari en sólin okkar. Þær brenna eldsneyti sínu hægar en sólin og gætu því haldið áfram að skína í milljón milljónir ára. Til samanburðar er líftími sólarinnar okkar um tíu milljarðar ára. Rauðu dvergarnir eru mjög virkir fyrst eftir myndun þeirra. Þeir gefa frá mikið magn orkuríkra röntgengeisla og útfjólubláa geisla. Þeir geta sorfið eða algerlega fjarlægt lofthjúp nálægra reikistjarna.

Flóðkraftarnir færi reikistjörnurnar inn á lífvænlegt svæði

Fjöldi fjarreikistjarna á stærð við smávaxinn Neptúnus hefur fundist á braut um fjarlægar stjörnur. Það eru gasreikistjörnur sem eru stærri en jörðin en minni en Neptúnus. Þær eru með bergkjarna en þykkan lofthjúp úr vetni og helíum. Talið er að þær myndist fjarri sólstjörnunum, meðal annars úr vatnsís. Tölvulíkön benda hins vegar til þess að flóðkraftar stjörnunnar geti haft þau áhrif á reikistjörnunar að þær færist smám saman nær þeim.

Þannig gætu þessar fjarreikistjörnur hafa færst það nálægt rauðu dvergunum að mestur hluti lofthjúpsins hafi verið sorfinn í burtu. Eftir stæði bergkjarni sem væri mögulega með mikið magn af vatni sem myndi bráðna og mynda úthöf. Það byði upp á möguleikann á því að líf gæti kviknað þar.

Frétt á vefnum Space.com um þróun fjarreikistjarna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert