Jökulsárgljúfur mynduðust í röð gríðarlega öflugra jökulhlaupa sem áttu sér stað með þúsunda ára millibili. Fossar Jökulsár á Fjöllum færðust allt að tvo kílómetra upp árfarveginn í hverju hlaupi, samkvæmt nýrri rannsókn jarðvísindamanna Edinborgarháskóla í Skotlandi.
Vísindamennirnir rannsökuðu berg á fimm kílómetra kafla í Jökulsárgljúfrum til þess að búa til tímalínu yfir þá atburði sem mótuðu landslagið. Þeir gerðu jarðefnafræðilega greiningu á berginu í veggjum gljúfranna til þess að áætla hversu lengi þeir hefðu staðið berskjaldaðir fyrir náttúruöflunum, að því er segir í tilkynningu frá Edinborgarháskóla.
Með þessum hætti tókst jarðvísindamönnunum að tengja breytingar á landslaginu við röð ofsafenginna jökulhlaupa sem áttu sér stað fyrir um 9.000, 5.000 og 2.000 árum. Eldvirkni undir Vatnajökli olli hlaupunum sem voru nógu öflug til eyða upp berggrunninum og mynda þannig gljúfrin.
„Við hugsum um umhverfið þannig að það mótist á þúsundum ára en stundum myndast það mjög skyndilega. Þessi innsýn í eina af stórbrotnu jarðmyndunum Íslands hjálpar okkur að skilja þessi ferli og undirstrikar arfleið þeirra,“ er haft eftir Edwin Baynes, frá jarðvísindadeild háskólans í tilkynningunni.