Almennur stuðningur við líknardráp

Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekk beint.
Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekk beint. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Nærri einn af hverjum fimm hollenskum læknum myndi íhuga að aðstoða einstakling við að deyja ef hann væru „þreyttur á að lifa“ en þjáðist ekki af líkamlegum kvilla. 2% sögðust hafa átt þátt í slíku líknardrápi eða veitt aðstoð við sjálfsvíg undir slíkum kringumstæðum.

Þetta kemur fram í niðurstöðum einna viðamestu rannsóknar á viðhorfum heilbrigðisstarfsfólks til líknardrápa sem hefur verið framkvæmd. Nærri 1.500 almennir læknar, öldrunarlæknar og aðrir sérfræðingar tóku þátt í rannsókninni, en niðurstöður hennar hafa verið birtar í tímaritinu Journal of Medical Ethics.

40% læknanna sögðu hugsanlegt að þeir myndu aðstoða einstakling sem væri á fyrri stigum andlegrar hrörnunnar við að deyja og 3% sögðust þegar hafa gert það. Rétt yfir þriðjungur sagðist viljugur til að aðstoða einstakling við að deyja ef hann þjáðist af geðsjúkdóm.

Hollensk löggjöf þykir afar frjálslynd hvað varðar líknardráp og aðstoð við sjálfsvíg, en árið 2002 voru þau rök lögfest að skylda lækna til að lina þjáningar gengi framar skyldu þeirra til að varðveita líf.

Lögin gera það að skilyrði að einstaklingur sem fer fram á líknardráp eða vill fá aðstoð við sjálfsvíg þurfi að horfa fram á „óbærilegar þjáningar án batahorfa“ en hvergi kemur fram að viðkomandi þurfi að þjást af líkamlegum kvilla. Hæstiréttur hefur hins vegar kveðið á um að ákvörðunin þurfi að byggja á læknisfræðilegum rökum.

18% af þátttakendum rannsóknarinnar sögðust engu að síður tilbúnir til að íhuga að aðstoða einstakling við að deyja ef hann þjáðist af lífsleiða og 27% sögðust líklega myndu aðstoða í þeim tilfellum þegar sjúklingur þjáðist af kvilla sem teldist ekki alvarlegur.

Höfundar rannsóknarinnar viðurkenna að það kann að skekkja niðurstöðurnar að þær byggja, eðli málsins samkvæmt, á svörum þeirra sem lögðu á sig að skila þeim inn, en 800 læknar sem fengu spurningalistann tóku ekki þátt.

Eva Bolt, rannsakandi við VU-háskóla í Amsterdam, sem fór fyrir rannsókninni, segir lögbrot að aðstoða einstaklinga sem ekki þjást af líkamlegum kvilla við að deyja. Þeir sem viðurkenndu að hafa gert það, gætu þó hafa gert það áður en lögin tóku gildi.

Þeim Hollendingum sem óska eftir að fá aðstoð við að deyja hefur fjölgað umtalsvert frá 2002 en þeir voru 4.829 árið 2013. Andleg hrörnun er löggild ástæða líknardauða og aðstoðar við sjálfsvíg, en 97 dóu þannig 2013.

Samkvæmt rannsókninni þjást 72% einstaklinga sem óska eftir aðstoð við að deyja af krabbameini. Af læknunum sem tóku þátt í rannsókninni, sögðust 80% tilbúnir til að aðstoða fólk við að deyja þegar um væri að ræða krabbamein eða aðra líkamlega kvilla.

Af þeim svarendum sem sögðust ekki tilbúnir til að aðstoða fólk við að deyja, reyndust tveir þriðju trúaðir. En margir þeirra sögðust tilbúnir til að vísa sjúklingum á lækni sem gæti aðstoðað þá, og fáir vildu að lögunum um líknardráp yrði breytt.

Guardian sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert