Íslendingar eru í ruslinu

Hamborgarar eru skyndibiti.
Hamborgarar eru skyndibiti. Eyþór Árnason

Íslendingar eru í sjötta sæti þegar kemur að neyslu ruslfæðis, ef marka má nýja rannsókn sem gerð var á tuttugu ára tímabili. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í Lancet Global Health Journal og er frá þeim greint í breskum fjölmiðlum, meðal annars á fréttamiðli Daily Mail.

Samkvæmt því sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknarinnar er að Armenar, Belgar og Ungverjar neyta mestrar óhollustu þegar að mataræði kemur á meðan íbúar Afríkuríkjanna Tsjad, Síerra Leóne og Malí borða hollasta matinn. Í frétt Daily Mail segir að íbúar Afríkuríkjanna borði mest af ávöxtum, grænmeti, hnetum og heilhveiti.

Af tíu efstu löndunum þar sem borðuð er mest hollusta eru níu í Afríku.

Þegar kemur að neyslu ruslfæðis trónir Aserbaídsjan á toppnum, í öðru sæti er Slóvakía, Tékkland í því þriðja, Belgía í fjórða og Heilongjiang, sem er hérað í Kína er í fimmta sæti. Þá kemur litla Ísland í sjötta sæti eins og fram hefur komið. Athygli vekur að Bandaríkin, sem eru oft kölluð land ruslfæðis, eru í níunda sæti. 

Rannsakaðar voru matavenjur og matarræði 197 þjóða eða 90% heimsbyggðar. Var hún gerð fyrst árið 1990 og svo aftur 2010. Sáu vísindamenn að mataræði í ríkustu löndum heims batnaði lítillega á milli ára. 

Ennfremur kom í ljós að íbúar ríkustu ríkjanna eins og Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu, Nýja-Sjálands og landa Vestur-Evrópu borða fremur óhollan mat og er það talið mega rekja að miklu leyti til skyndibitamenningar. 

Prófessor við Cambridge-háskóla, Fumiaki Imamura, sem fór fyrir rannsókninni segir að hún sýni óhugnanlega framtíðarsýn. „Árið 2020 er því spáð að áunnir sjúkdómar verði orsök 75% allra dauðsfalla. Mikilvægt er að mataræðinu verði breytt til þess að minnka líkurnar á að það gerist.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert