Afneitunarsinni á olíuspena

Kolefnisiðnaðurinn hefur reynt að hafa áhrif á afstöðu almennings til …
Kolefnisiðnaðurinn hefur reynt að hafa áhrif á afstöðu almennings til loftslagsbreytinga með því að kaupa rannsóknir sem véfengja það að gróðurhúsalofttegundir valdi þeim. AFP

Þeir sem afneita loftslagsbreytingum af völdum manna hafa í gegnum tíðina oft vitnað til Wei-Hock „Willie“ Soon, vísindamanns hjá stjarneðlisfræðimiðstöð Harvard-Smithsonian. Soon hefur hins vegar þegið háar fjárhæðir frá kolefnaeldsneytisiðnaðinum án þess að láta þess getið í rannsóknum sínum.

Soon hefur haldið því fram að breytileiki í virkni sólarinnar skýri hlýnun jarðar. Það gengur þvert á þá viðteknu kenningu vísindamanna að hlýnunin stafi af auknu magni koltvísýrings í lofthjúpinum sem helgast af bruna manna á kolefnaeldsneyti.

The New York Times fjallar um gögn sem nýverið hafa verið gerð opinber sem sýna að Soon hefur þegið meira en 1,2 milljónir dollara, jafnvirði tæpra 159 milljóna króna, á undanförnum áratug frá kolefnaeldsneytisiðnaðinum. Hann hefur hins vegar ekki látið þessa hagsmunaárekstrar getið í ellefu vísindagreinum sem hann hefur skrifað frá árinu 2008. Í að minnsta kosti átta tilfellum virðist hann hafa brotið siðareglur þeirra tímarita sem greinarnar birtust í.

Reiða sig á ásýnd vísindalegrar rökræðu

Soon hefur ekki tjáð sig um gögnin en á meðal þeirra eru tölvusamskipti hans og fyrirtækjanna. Þar talar hann um að vísindagreinar og framburðir fyrir þingnefndum séu „afhendanlegir“. Hann hefur hins vegar alltaf haldið því fram að tengsl hans við iðnaðinn hafi ekki áhrif á vísindaniðurstöður hans.

Yfirmaður Soon hjá Harvard-Smithsonian segir hann hafa brotið siðareglur nokkurra vísindatímarita. Tekið verði á málinu innanhúss hjá stofnuninni. Harvard-háskóli og Smithsonian-safnið reka stjarneðlisfræðimiðstöðina sameiginlega.

Umhverfisverndarsinnar hafa lengi gagnrýnt Soon en vitað hefur verið að hann hefur þegið fé frá kolefnaeldsneytisfyrirtækjum. Gögnin sýna hins vegar að þessi tengsl eru nánari en áður var talið og að fjárveitingar fyrirtækjanna til hans hafi verið beintengdar ákveðnum rannsóknum. Fjárstuðningsins var síðan ekki getið í greinunum sem Soon skrifaði um niðurstöðurnar.

„Öll herkænskan að baki þess að skapa efa reiðir sig á að búin sé til tálmynd vísindalegrar rökræðu. Willie Soon er að leika hlutverk í ákveðnu pólitísku leikhúsi,“ segir Naomi Oreskes, vísindasagnfræðingur við Harvard-háskóla. Hann er einn höfunda bókarinnar „Merchant of Doubt“ sem fjallar um þá sem reyna að grafa undan vísindalegum niðurstöðum, eins og tóbaksframleiðendur reyndu til dæmis að gera með tengsl reykinga og krabbameins.

Frétt The New York Times af tengslum kolefnaeldsneytisiðnaðarins við loftslagsrannsóknir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert