Tóbaksiðnaðurinn mótaði aðferðirnar sem afneitunarsinnar nota um þessar mundir til þess að skapa ásýnd þess að enn sé deilt um loftslagsvísindin. Fólk er móttækilegt fyrir því þar sem það vill ekki trúa því að þeirra eigin lífsstíll sé orsök vandamálsins, að mati Eriks Conway, vísindasagnfræðings.
Conway starfar við Caltech-háskóla í Kaliforníu og er annar höfunda bókarinnar „Efamangararnir“ (e. Merchants of Doubt) sem samnefnd mynd sem sýnd er á Stockfish-hátíðinni var gerð eftir. Í henni fjallar hann og starfssystir hans, Naomi Oreskes, um uppruna skipulagðrar afneitunar Í Bandaríkjunum á þeirri staðreynd að loftslagsbreytingar eigi sér nú stað á jörðinni af völdum manna. Conway mun halda erindi á málþinginu „Heit framtíð, kalt stríð: vísindin og loftslagsumræðan“ í Háskóla Íslands á sunnudag.
Málþingið er á vegum Earth 101-verkefnisins. Það er vettvangur þar sem heimildamyndagerðarmenn og sérfræðingar á sviði loftslagsvísinda koma saman til að ræða málaflokkinn í Reykjavík. Fyrsta ráðstefnan á vegum þess var haldin árið 2013.
Tveir meginþræðirnir í bókinni. Annars vegar er sá að tóbaksiðnaðurinn, sem hélt því lengi fram að engin tengsl væru á milli reykinga og krabbameins, hafi skapað aðferðirnar og sumar stofnanirnar sem afneitunarsinnar í loftslagsmálum beita nú fyrir sig til að koma boðskap sínum á framfæri. Hinn er að afneitunin hafi meðal annars sprottið upp úr hugarheimi kalda stríðsins.
Þannig hafi hópur eðlisfræðinga til að mynda stofnað George C. Marshall-stofnunina sem var ætlað að verja stjörnustríðsáætlun Ronalds Reagan, þáverandi forseta Bandaríkjanna. Þegar Sovétríkin leystust upp snerist starf stofnunarinnar upp í að afneita loftslagsvísindunum.
„Rökin voru mjög áþekk. Þeir færðu rök fyrir stjörnustríðsáætluninni til að koma í veg fyrir að kommúnistar næðu völdum í Evrópu og eftir fall Sovétríkjanna færðu þeir rök fyrir því að umhverfisverndarsinnar væru bara kommúnistar í nýjum búningi. Þeir notuðu hugtakið „vatnsmelónur“ til að segja þennan sama hlut. Grænir að innan en rauðir að utan. Með öðrum orðum, umhverfisverndarsinnar eru bara kommúnistar. Hópurinn að baki Marshall-stofnuninni hélt því afneitun um loftslagsbreytingar á lofti til þess að koma í veg fyrir að kommúnistar/umhverfisverndarsinnar tækju yfir heiminn. Kenning okkar er að loftslagsvísindin hafi orðið fórnarlamb hugarfars kalda stríðsins,“ segir Conway í viðtali við mbl.is.
Þessi afneitun hafi ekki snúist um peninga. Í tilfelli Marshall-stofnunarinnar þá hafi hópur eðlisfræðinga sem fóru út í fræðin til að læra um heiminn misst sjónar á því vegna hugsunarháttar kalda stríðsins. Conway segir að þeir hafi misst áhuga á eðlisfræðistörfunum og snúið sér að hagsmunagæslu.
Á árunum sem síðan eru liðin hefur afneitunin hins vegar breiðst út og peningar frá kolefnaeldsneytisiðnaðinum hefur haldið lífi í henni. Fjöldi virkra stjórnmálahreyfinga hafi sprottið upp eins og Cato-stofnunin og Heartland-stofnunin sem hafi yfirlýstan pólitískan tilgang.
Conway segir þetta fordæmi frá tóbaksiðnaðinum. Hann hafi ekki aðeins komið á fót einni stofnun til að tala máli sínu heldur hafi lagt fé til aragrúa stofnana, hópa og einstaklinga.
„Þetta skapar ímynd rökræðu. Ég segi ímynd rökræðu því það eru í raun engar deilur innan vísindasamfélagsins. Því á rökræðan sér stað í opinberri umræðu, ekki í vísindatímaritum. Þess vegna er þetta ekki vísindaleg rökræða lengur. Þetta er opinber umræða og pólitísk umræða. Það er tilgangurinn. Ef þú vilt koma í veg fyrir lausnir þarftu að halda áfram að sannfæra fólk um að vísindin hafi ekki komist að niðurstöðu, að enn séu deilur í gangi og því sé ekki ástæða til að bregðast við strax. Til að halda uppi ásýnd rökræðu,“ segir Conway.
Fleiri þættir spila hins vegar inn í um hvers vegna afneitun vísindanna þegar kemur að loftslagsbreytingum heldur áfram, þrátt fyrir mikið magn gagna sem sýnir fram á vandann. Þar á meðal er það hversu óþægileg hugsunin er fyrir fólk að það beri ábyrgð á honum.
„Það er annað mál hvers vegna fólk trúir þessu. Hluti af svarinu er að það er hreinskilnislega óþægilegt að þurfa að gera eitthvað í loftslagsbreytingum af mannavöldum á ýmsan hátt. Eitt eru þessi beinu óþægindi, ef maður eins og Kevin Anderson hefur rétt fyrir sér, og við þurfum öll að nota mun minni orku núna strax. Þá verða húsin okkar kaldari og reikningarnir hækka. Engum líkar við þær lausnir. Það er líka óþægilegt á annan hátt. Enginn vil trúa því að hann beri ábyrgð á þessu vandamáli. Flestir vilja lifa góðu lífi á siðferðislegan hátt og vilja ekki láta segja sér að þeir geri það ekki í raun og að þeir beri ábyrgð á dauða Afríkubúa vegna þess losun okkar á gróðurhúsalofttegundum veldur þurrkum þar,“ segir Conway.
Þetta gerir fólk móttækilegt fyrir hugmyndum sem koma frá hægrisinnuðum fjölmiðlum um að vísindasamfélagið sé ekki á einu máli og því þurfum við ekki að aðhafast neitt.
„Flestir skilja ekki einu sinni til fullnustu hvað þyrfti að gera. Þetta er ekki einu sinni spurning um hversu slæmt þetta er heldur að við viljum ekki trúa því að lífið sem við lifum sé orsök þessara vandamála. Það gerir afneitunarsinnum auðvelt fyrir að koma skilaboðum sínum á framfæri og að fá fólk til að trúa þeim,“ segir hann.
Spurður að því hvort að saga afneitunar tóbaksiðnaðarins gefi einhverjar vísbendingar um það hversu lengi menn geta haldið áfram að ala á óeiningu um loftslagsvísindin segir Conway að kolefnaeldsneytisiðnaðurinn muni tapa á endanum. Það muni hins vegar reynast heiminum dýrkeypt.
„Fulltrúum tóbaksiðnaðarins tókst að koma í veg fyrir lagasetningar í sex til sjö áratugi áður en þeir voru neyddir til þess að viðurkenna eiðsvarnir að þeir höfðu logið. Þeir töpuðu gríðarlegum fjárhæðum í lögsóknum í Bandaríkjunum. Vandamálið er að það tók sex eða sjö áratugi og við höfum ekki svona langan tíma með loftslagsbreytingar. Ég á von á því að einn daginn muni olíu- og kolafyrirtækin tapa álíka risavöxnu dómsmáli gegn ríki sem er að fara á kaf. Ég veit ekki hver sú málsókn verður en þá verður það alltof seint því að tregðan í loftslagskerfinu er slík að losunin í dag mun breyta loftslaginu eftir 50 ár. Það er grundvallarhluti af vandamálinu að við hefðum þurft að hefjast handa fyrir 20-25 árum þegar við gerðum okkur fyrst grein fyrir vandamálinu til þess að gera það sæmilega viðráðanlegt. Hvert ár sem við sláum aðgerðum á frest þýðir að við gerum það enn erfiðara. Þess vegna vil ég ekki nota orðið vongóður því að á endanum munu þeir tapa en skaðinn sem hlýst af á meðan er óafturkræfur og gríðarlegur,“ segir Conway.
Sjálfur telur Conway engin leið verði að ná markmiði sem þjóðir heims hafa sett sér um að halda hlýnun jarðar innan við 2°C til að forða verstu afleiðingum loftslagsbreytinga. Enginn gæti selt þær stefnubreytingar sem þarf til svo að svo megi verða.
„Ef ég væri einræðisherra yfir heiminum og reyndi það stæði ég frammi fyrir uppreisn. Það er ekki raunhæft markmið. Jafnvel þó að það sé það siðferðislega rétta þá erum við bara ekki fær um að gera það. Það er ekki hægt að umbylta stjórnmála- og efnahagskerfi okkar nógu hratt,“ segir hann.
Frétt mbl.is: Höfum kosið að gera ekkert