Tvær ungar vísindakonur eyða nú mestum hluta frítíma síns í að halda úti nýrri vefsíðu sem sérhæfir sig í vísindafréttum. Síðan heitir Hvatinn en að sögn Önnu Veroniku Bjarkadóttir, verndunarlíffræðings, er tilgangurinn að gera vísindin, sem almennt sé lítið fjallað um á Íslandi, aðgengilegri fyrir almenning.
„Við segjum frá vísindum á faglegan en jafnframt einfaldan og skemmtilegan hátt. Það er svona stefnan hjá okkur að gera vísindi aðgengilegri fyrir almenning og reyna að vekja áhuga fólks á þeim. Það er mjög lítið um fréttaflutning af þessu tagi á Íslandi og okkur langaði að breyta því,“ segir Anna Veronika en hún og Edda Olgudóttir, líffræðingur, settu síðuna í loftið fyrir rúmri viku.
Í fréttum um vísindi á erlendum síðum sé oft mikið af stórum orðum sem fólk þarf að fletta upp til að botna í þeim. Anna Veronika segir að þeim hafi langað að segja frá vísindum á einfaldan hátt svo almenningur gæti skilið hvað sé í gangi. Í þeim tilgangi reyni þær að lesa sjálfar vísindagreinarnar sem fréttirnar fjalla um áður en þær birti þær.
Þær Edda kynntust í líffræðinámi við Háskóla Íslands fyrir nokkrum árum en Anna Veronika vinnur nú hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Edda hjá Matís.
„Þetta er eitthvað sem við höfum lengi talað um að það vanti meiri fréttaflutning af vísindum. Svo ákváðum við bara að skella okkur í þetta í desember. Við erum náttúrulega báðar í vinnu þannig að svo gott sem allur okkur frítími fer í þetta núna en við höfum bara gaman af því,“ segir Anna Veronika.
Viðtökurnar segir hún hafa verið jákvæðar en nú hafa til dæmis hátt á annað þúsund manns líkað við Facebook-síðu vefsins. Þær hafi fundið fyrir miklum meðbyr. Nafn síðunnar er síðan bæði vísun í hvatbera í frumum og hvatann til að fræðast um vísindin.
„Okkur fannst þetta bara einfalt og flott,“ segir Anna Veronika um uppruna nafngiftarinnar.