Meðallengd reðursins liggur fyrir

Penni þessi er eilítið lengri en meðallimur í fullri reisn. …
Penni þessi er eilítið lengri en meðallimur í fullri reisn. Hann er þó ágætis viðmið.

Vísindamenn í Bretlandi hafa tekið saman mælingar á yfir 15 þúsund getnaðarlimum og reiknað út meðalstærð og -ummál. Tilgangur rannsóknarinnar var m.a. að safna gögnum til viðmiðunar þegar menn kvarta yfir litlum getnaðarlim.

Niðurstöður voru þær að meðallengd getnaðarlima (eins og þeir hanga) er 9,16 sm, en 13,24 sm þegar teygt hefur verið úr þeim. Þá er meðallengd í fullri reisn 13,12 cm. Meðal ummál getnaðarlima (eins og þeir hanga) er 9,31 sm, en 11,66 í fullri reisn.

Aðeins var horft til rannsókna þar sem þátttakendur voru fleiri en 50 og mælingar voru framkvæmdar af heilbrigðisstarfsmanni.

Veik tengls fundust milli hæðar og lengdar á teygðum getnaðarlimum og limum í fullri reisn. Fátt virðist styðja kerlingabækur um tengsl milli typpastærðar og fingralengdar eða skónúmers.

Í greinargerð vísindamannanna kemur fram að aðeins um 2,28% karlmanna eru með „óeðlilega“ lítinn getnaðarlim. Svipað hlutfall karla hefur óvenju stóran reður.

Vísindamennirnir geta þess að það skekki mögulega niðurstöðurnar að þeir karlmenn sem bjóða sig fram í mælingar af þessu tagi séu e.t.v. sérstaklega sjálfsöruggir hvað varðar stærð getnaðarlims síns.

Þá geta þeir þess í niðurlagi greinargerðar sinnar að önnur rannsókn á viðhorfum yfir 50 þúsund gagnkynhneigðra karla og kvenna til typpastærðar, leiddi í ljós að 85% kvenna eru sáttar við stærð reðurs maka síns en aðeins 55% karla segjast sáttir við stærð lims síns.

Vísindamennirnir sem stóðu að athuguninni starfa m.a. við The Institute of Psychiatry, Psychology and Neuroscience í Lundúnum og King's College London Medical School. Niðurstöðurnar voru birtar í British Journal of Urology.

Hér má finna niðurstöðurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert