Eina langtímalausnin á loftslagsbreytingum er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Aðrar leiðir eins og kolefnisbinding eru hins vegar nauðsynlegar á meðan menn færa sig yfir í endurnýjanlega orkugjafa, að sögn Bjarna Diðriks Sigurðssonar, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann er einn þeirra sem halda erindi á opnum fundi Landsvirkjunar um ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum sem fer fram í dag.
Jarðarbúar hafa dælt um níu milljörðum tonna af hreinu kolefni út í lofthjúp jarðarinnar á hverju ári að meðaltali undanfarinn áratug. Losun manna á gróðurhúsalofttegundum veldur því að meðalhitastig jarðarinnar rís og gæti hann verið orðinn allt frá 4-6°C hærri við lok aldarinnar en miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu. Þjóðir heims hafa hins vegar sett sér það markmið að halda hlýnuninni innan við 2°C.
Mörg erindanna á fundi Landsvirkjunar fjalla um uppgræðslu og kolefnisbindingu. Bjarni Diðrik segir hins vegar að slíkar aðferðir geti aldrei orðið varanlegar lausnir á loftslagsbreytingum af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda.
„Eina varanlega lausnin er að hætta að nota jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa. Hinar leiðirnar geta eingöngu keypt okkur tímabundinn frest. Með þeim getum við í raun keypt okkur tíma til að geta brugðist við að breyta orkugjöfunum. Slíkt myndi aldrei leysa langtímavandamálið,“ segir Bjarni Diðrik.
Leiðir eins og kolefnisbinding verða hins vegar mikilvægar á næstu tíu til fimmtíu árum á meðan menn færa sig yfir í aðra orkugjafa.
„Við þurfum á öllum þessum leiðum að halda ef við eigum að draga úr þessum áhrifum eins og kostur er. Það er engin ein leið rétt heldur þurfum við á þeim öllum að halda,“ leggur Bjarni Diðrik áherslu á.
Þrátt fyrir að menn losi um níu milljarða tonna af kolefni út í loftið segir Bjarni Diðrik að um 60% af menguninni sé tekin upp af vistkerfum, landi og sjó. Vísindamenn velti hins vegar fyrir sér hvort að náttúruleg vistkerfi haldi áfram að taka upp og geyma svo mikið magn kolefnis. Ef virkni þeirra hvað þetta varðar minnkar í framtíðinni gæti styrkur gróðurhúsalofttegunda aukist hlutfallslega hraðar en menn hafa spáð.
Ísland er það land sem er með hæst hlutfall endurnýjanlegrar orku í heiminum enda fæst 99% af upphitun og raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Til þess að Íslendingar geti dregið úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum þurfa þeir að finna aðrar leiðir en kolefnaeldsneyti fyrir bílar, skip og flugvélar. Af þessari ástæðu eru leiðir eins og kolefnisbinding mikilvægar hér á landi, segir Bjarni Diðrik.
„Við munum aldrei geta komist lengra en tæknilegar lausnir finnast. Það er gríðarlega margt að gerast á heimsvísu og við njótum góðs að því en Ísland er lítið land og við erum náttúrulega ekki að þróa þessar iðnaðarlausnir. Það er einmitt á þessu fljótandi eldsneyti sem allt stendur hjá okkur að komast lengra. Önnur lönd eru að draga mikið úr losun en það eru orkukerfin sem menn eru að breyta en ekki fljótandi eldsneyti,“ segir hann.
Bjarni Diðrik segir lausnin á loftslagsbreytingum vera siðferðislega spurningu. Vandamálið sé hnattrænt og allir verði að standa sína plikt.
„Við getum ekki látið Bandaríkjamenn eða aðrar þjóðir gera allar breytingar hjá sér og ætlast til þess að við njótum góðs af því. Allir alþjóðasamningar ganga út á að hvert land fyrir sig geri það sem það getur til að draga úr þessari losun. Á meðan við erum ekki komin með lausnirnar endanlega á þessu fljótandi eldsneyti á Íslandi þá höfum við þessa bindileið af því að við erum búin að breyta orkukerfinu,“ segir hann.