National Geographic kallar leitina að krúttsprengjunni á meðfylgandi mynd heimsins lengsta feluleik. Dýrið, sem ber heitið Ili pika eða múshéri upp á íslensku er afar smágert spendýr hvers andlit minnir á leikfangabangsa. Dýrið hefst við í hinum kínverska Tianshan-fjallgarði í Norðvestur-Kína og hefur tekist að fela sig fyrir vísindamönnum í meira en 20 ár.
Dýrið hefur sést örfáum sinnum síðan það var uppgötvað fyrir slysni árið 1983. Raunar hafa aðeins 29 einstaklingar af tegundini sést á lífi og er því afar lítið vitað um hegðun dýrsins og vistfræði. Svo var það, sumarið 2014, að vísindamenn uppgötvuðu múshérann á ný.
Vísindamaðurinn Weidong Li sem var fyrstur til að uppgötva dýrið safnaði saman hópi sjálfboðaliða í Tianshan-fjöllum til að leita að múshérum. Það var svo á hádegi einn daginn, þar sem teymið var að setja upp myndavélagildrur að forvitinn múshéri kíkti á hópinn og Li tók nokkrar myndir.
Múshérar eru um 20 cm á hæð með stór eyru og marga litla brúna bletti á gráum feldinum. Þeir halda sig í fjalllendi á svæðum í milli 2.800 og 4.100 metra hæð rétt eins og aðrar tegundir múshéra sem fundist hafa í Norður-Ameríku. Dýrin lifa einna helst á grösum og kryddjurtum auk annarra plantna sem finnast á fjöllum. Árið 1990 var talið að um 2.000 einstaklingar af tegundinni væru til en að þeim fækkaði hratt. Litið er svo á að tegund sé í útrýmingarhættu vegna ágangs búfénaðar á heimkynni þeirra sem og vegna loftmengunar.