Ekki hægt að knýja sig áfram með vindgangi

Nýir áhafnarmeðlimir komu til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar um helgina og fá …
Nýir áhafnarmeðlimir komu til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar um helgina og fá nú að reyna á eigin skinni hvernig er að búa í þyngdarleysi. AFP

Geimfarar fá meiri vindgang þegar þeir eru á braut um jörðina en á jörðu niðri. Því miður geta þeir þó ekki notað hann til að knýja sig áfram í þyngdarleysinu. Þetta er á meðal þess sem hefur komið fram hjá geimförum sem hafa setið fyrir svörum á samskiptamiðlinum Reddit.

Vefmiðillinn Vox hefur tekið saman það bitastæðasta sem komið hefur fram í svörum geimfaranna á Reddit í gegnum tíðina. Sárafáir menn vita af eigin raun hvernig það er að búa í geimnum, aðeins 538 hafa komist á braut um jörðina, fæstir þeirra til lengri tíma, og því hafa spurningar um hvernig hversdagslegir hlutir eins og vindgangur, kynlíf og sviti virka í geimnum brunnið á notendum vefsíðunnar.

Svitinn verður að drykkjarvatni

Vegna þyngdarleysisins í geimnum loðir sviti við geimfarana þegar þeir reyna á sig. Það getur haft vandamál í för með sér.

„Hann safnast saman á höndunum á þér og á höfðinu. Hann getur líka safnast saman og farið í augun á þér. Ef þú ert að hlaupa þá spýtist hann af þér á veggina og aðra hluti og þá þarftu að þrífa veggina í kringum þig. Þess vegna verðurðu að þurrka þig oft til þess að hafa stjórn á honum,“ skrifaði Mike Hopkins, bandarískur geimfari.

Svitinn safnast svo saman í loftþéttikerfi Alþjóðlegu geimstöðvarinnar þar sem hann er endurnýttur og verður á endanum að drykkjarvatni áhafnarinnar.

Prumpið of dauft 

Kanadíski geimfarinn Chris Hadfield segir að hann hafi orðið var við að hafa fengið meiri vindgang þegar hann kom út í geim. Ástæðan sé sú að nánast ómögulegt sé að ropa vegna þyngdarleysisins því gas, vökvi og efni á föstu formi blandist saman í einn graut í maganum. Því miður gátu geimfararnir ekki nýtt gasið úr iðrum sínum sem nokkurs konar eldflaug til að spýta sér áfram í þyngdarleysinu.

„Við reyndum þetta öll,“ skrifaði Hadfield en prumpið var „of dauft, ekki rétta tegundin af þrýstistút“.

Þá kom fram hjá geimförunum að þó að það væri ýmsum erfiðleikum háð, þá sé mögulegt að stunda kynlíf í þyngdarleysi. Ekki sé þó sérstaklega ráðlegt að reyna það í geimnum. Einn Reddit-notandinn spurði fv. geimfarann Ron Garan þessu tengt hvort að karlmönnum gæti risið hold í geimnum.

„Ég veit ekki um neitt sem á sér stað í mannslíkamanum á jörðinni sem getur ekki átt sér stað í geimnum,“ svaraði Garan sposkur.

Ekki er vitað til þess að tveir geimfarar (eða fleiri) hafi nokkru sinni stundað kynlíf í geimnum en Chris Hadfield segir að það hefði flókin, og mögulega skaðleg, sálfræðileg áhrif í ljósi þess að áhafnir í geimferðum eru fámennar.

„Geimfarar eru bara fólk í geimnum en við erum fagmenn og áhafnarmeðlimir og gagnkvæm virðing og liðsárangur er lykillinn,“ segir hann.

Grein Vox um svör geimfara til notenda Reddit

Chris Hadfield segir alla áhöfn Alþjóðlegu geimstöðvarinnar hafa reynt að …
Chris Hadfield segir alla áhöfn Alþjóðlegu geimstöðvarinnar hafa reynt að þrýsta sér áfram með eigin prumpi. MIKHAIL METZEL
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert