Segja ekki sýnt fram á gagnsemi lýsis

Vinsældir lýsis sem fæðubótarefnis í Bandaríkjunum er ekki í samræmi við niðurstöður fjölda rannsókna undanfarinna ára sem hafa leitt í ljós að það virðist ekki minnka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Vegna framfara í meðferð á þeim sjúkdómum gæti tími lýsis sem fæðubótarefnis verið liðinn undir lok.

Frétt mbl.is: Lýsi kemur ekki í stað lyfja

Í umfjöllun The New York Times um vinsældir fisklýsis kemur fram að það sé nú þriðja mest selda fæðubótarefnið í Bandaríkjunum á eftir vítamínum og steinefnum. Að minnsta kosti 10% Bandaríkjamanna taki lýsi reglulega í þeirri trú að omega-3-fitusýrur verndi þá fyrir hjarta- og æðasjúkdómum.

Í kenningunni ættu fitusýrurnar í lýsi að vera gagnlegar og eldri rannsóknir bentu til þess að lýsi hefði jákvæð áhrif, til dæmis að neysla þess væri ástæða óvenjulágrar tíðni hjarta- og æðasjúkdóma hjá inúítum á Grænlandi og hún drægi úr dánartíðni sjúklinga eftir hjartaáfall. Í seinni tíð hafa menn hins vegar efast um þær niðurstöður. 

Áhrifin merkjanlegri þegar meðferðir voru síðri

Á þriðja tug ítarlegra rannsókna á lýsi birtust í helstu læknaritum heims á árunum 2005 til 2012 en þær hafa ekki sýnt fram á að inntaka þess hafi merkjanleg áhrif á heilsu neytenda borið saman við lyfleysu. Þannig birtist rannsókn sem gerð var á 12.000 manns í The New England Journal of Medicine árið 2013 sem sýndi að gramm af lýsi á dag dró ekki úr dánartíðni af völdum hjartaáfalla og slaga hjá fólki með fituhrörnun í slagæðum.

„Ég held að tími lýsis sem lyfs geti talist vera liðinn núna,“ segir dr. Gianni Tognoni frá lyfjarannsóknastofnuninni í Mílanó, aðalhöfundur þeirrar rannsóknar.

Dr. James Stein, forstöðumaður hjartasjúkdómaforvarna hjá Wisconsin-háskólasjúkrahúsinu, bendir á að fyrri rannsóknir á áhrifum lýsis hafi átt sér stað á tíma þegar meðferð við hjarta- og æðasjúkdómum var allt önnur en nú. Þannig hefðu áhrif lýsis, jafnvel þó þau væru lítil, verði merkjanlegri þá en nú.

„Meðferðirnar eru orðnar svo góðar núna að ef þú bætir einhverju eins smávægilegu og lýsishylki við þá breytir það ekki miklu til eða frá. Það er erfitt að bæta þær með inngripi sem er ekki mjög sterkt,“ segir Stein.

Grein The New York Times um lýsi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert