Hefur sjávarkuldi áhrif á sumarið?

Myndin sýnir frávik frá meðalhitastigi sjávar. Kalda svæðið suður af …
Myndin sýnir frávik frá meðalhitastigi sjávar. Kalda svæðið suður af Íslandi er vel sýnilegt, auk þess sem sjá má kalt svæði norður af Færeyjum. Mynd/NOAA

„Það má líkja þessu við sveiflur á fjármálamörkuðum, það kippir sér enginn upp við skammtímasveiflur en það er ýmislegt sem bendir til þess að þetta sé aðeins meira en skammtímasveiflur,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur um kuldafrávikin í Atlantshafinu og áhrif þess á veðrið í sumar.

Í frétt Verdens gang í dag segir að líklegt sé að sumarið verði ekki sérlega gott í Noregi og sennilega ekki á Íslandi heldur. Gott veður verði hins vegar í Rússlandi og Austur-Evrópu. 

Sjórinn sunnan Íslands er talsvert kaldari en áður og er líklegt að það muni hafa áhrif á veðurfar hér á landi. „Við þekkjum það frá fyrri tíð að svona frávik frá hitastigi sjávar hafa áhrif á tíðarfarið. Það er engin spurning. Það er hins vegar ekki gott að segja til um það með hvaða hætti það verður,“ segir Einar og bætir við:

„Við megum ekki gleyma því heldur að við erum búin að fá mörg góð sumur, árið 2010 og fyrir það voru þau hlý og væn. Síðan var sett hitamet í Grímsey í fyrra vegna hlýs sjávar. Þetta kalda frávik fyrir sunnan okkur veldur samt talsverðum ugg því þetta er mikil breyting. Það bar aðeins á þessu í fyrra en þetta er miklu meira núna,“ segir Einar.

Áhrif á uppsjávarstofna

Einar bendir á grein vísindamannsins Stefans Rahmstorfs í nýjasta tímarit Nature Climate Change. Þar fjallar hann um veikingu ákveðinna hafstrauma í Golf-straumnum. 

„Stefan fjallar um þann hluta golfstraumsins sem fer inn í Labradorhafið fyrir sunnan Grænland. Sá straumur er hringstraumur sem virðist vera að veikjast. Ekki er þó vitað hvort það sé afleiðing þess að sjórinn hafi kólnað eða öfugt, en þetta tvennt spilar saman.“

„Það verður mjög áhugavert að fylgjast með áhrifunum og hvaða þýðingu þetta mun hafa á veðráttuna hjá okkur. Ekki síst hvort þetta fari að hafa áhrif á gang stóru uppsjávarstofnana. Við erum náttúrlega búin að hafa talsverðar makrílgöngur hérna vegna hlýs sjóvar. Við vitum að þær koma ekki til með að vara endalaust,“ segir Einar. 

Sjávarhitinn sem stjórnar veðurfarinu hjá okkur. Ef það breytingar verða á hita sjávarsvæðanna við Ísland hefur það áhrif á þrýstifarið og varmaskipti á milli lofthjúps og sjávar og þetta tvennt er það sem mótar veðrið hjá okkur frá degi til dags, sérstaklega á eyju úti í Atlantshafi sem umlukin er af sjó. 

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert