Jöklar Kanada að hverfa

Jöklar verða fórnarlömb hnattrænnar hlýnunar á þessari öld. Myndin er …
Jöklar verða fórnarlömb hnattrænnar hlýnunar á þessari öld. Myndin er frá Grænlandi og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. AFP

Hnattræn hlýnun mun valda því að stór hluti jökla í fjöllum Kanada muni bráðna áður en þessi öld er úti. Rannsókn vísindamanna við þarlenda háskóla leiðir í ljós að jöklarnir muni tapar allt að 70% af rúmmáli sínu og jafnvel þó miðað sé við hóflegustu spár um hlýnun séu flestir jöklarnir dauðadæmdir.

Rannsóknin var birt í tímaritinu Nature Geoscience en samkvæmt henni munu jöklar í Alberta og Bresku Kólumbíu minnka um 75% að flatarmáli miðað við stöðu þeirra árið 2005 og um 70% að rúmmáli fyrir árið 2100. Á sumum svæðum gæti hnignun jöklanna orðið enn meiri og numið 90%, að því er kemur fram í frétt The Guardian af rannsókninni.

Vísindamennirnir notuðu tölvulíkan sem keyrði saman fjórar þekktar sviðsmyndir hnattrænnar hlýnunar á þessari öld og gögn um þrjú svæði í vesturhluta Kanada sem eru þakin jöklum ásamt upplýsingum um hvernig þeir bráðna. Jafnvel þó að aðeins sé miðað við 0,3-1,7°C hlýnun á þessari öld, lægsta viðmiðið, þá bendir líkanið til þess að dagar flestra jöklanna séu taldir.

Miðað við núverandi losun manna á gróðurhúsalofttegundum sem valda hlýnuninni er hins vegar líklegra að hún verði á bilinu 2,6-4,8°C. Markmiðið sem þjóðir heims hafa sett sér er að halda hlýnuninni innan við 2°C.

„Þegar jöklarnir eru horfnir missum við mikilvæga þjónustu sem þeir veita: stuðpúði gegn heitum og þurrum tímabilum í lok sumars sem heldur árupptökum gangandi og svölum, og heldur lífinu í sjávardýrum sem þrífast í köldu vatni,“ segir Garry Clarke, prófessor við Háskólann í Bresku Kólumbíu í Vancouver.

Frétt The Guardian af spá um bráðnun kanadískra jökla

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert