Uppeldið áhrif á greindarvísitölu?

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Sænskir vísindamenn í samstarfi við bandaríska kollega sína hafa birt niðurstöðu rannsóknar á áhrifum uppeldis á greindarvísitölu. Voru bornir saman 218 bræður, þ.e. 436 einstaklingar sem höfðu alist upp hver hjá sinni fjölskyldunni. 

Það skal tekið fram að í rannsókninni var aðeins könnuð fylgnin en ekki orsakasamhengið.

Vísindamennirnir skoðuðu niðurstöður greindarvísitöluprófa bræðra, annars vegar sem höfðu alist upp hjá líffræðilegum foreldrum sínum og hins vegar hjá foreldrum sem höfðu ættleitt þá. Í ljós kom að þeir sem höfðu alist upp hjá ættleiðingarforeldrum sínum voru með að meðaltali 4,4% hærri greindarvísitölu.

Þegar hópur ættleiðingarforeldra var svo kannaður kom í ljós að þeir foreldrar voru að meðaltali eldri, menntaðri og bjuggu við betri kjör, bæði félagslega og fjárhagslega.

Telja vísindamennirnir að það bendi til þess að samhengi sé á milli menntunar og uppeldis annars vegar og greindarvísitölu hins vegar.

Þeir strákar sem áttu best menntuðu ættleiðingarforeldrana mældust með hærri greindarvísitölu en þeir sem voru ættleiddir til foreldra með minni menntun. 

Í niðurstöðum rannsóknarinnar segja vísindamennirnir þó að genin skipti ennþá miklu máli fyrir greindarvísitölu. Auk þess var munurinn sem mældist ekki ýkja mikill. „Þessi rannsókn sýnir þó að vel menntaðir foreldrar gera eitthvað fyrir sín börn sem veitir þeim hærri greindarvísitölu og það er ekki þáttur í genunum,“ segir Kenneth S. Kendler við háskólann í Virginíu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka