Samband er á milli fjölgunar dauðsfalla á höfuðborgarsvæðinu og hækkunar á styrk brennisteinsvetnis frá jarðhitavirkjunum í nágrenni þess samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Ragnhildur Finnbjörnsdóttir, höfundur hennar, segir niðurstöðurnar vísbendingu sem gefi ástæðu til að kanna málið betur.
Í rannsókninni, sem Ragnhildur vann sem hluta af doktorsnámi sínu við miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, voru tengsl fjölda dauðsfalla á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2003 til 2009 og aukningar í styrk brennisteinsvetnis í lofti frá Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjunum könnuð. Í ljós kom að dauðsföllum fjölgaði marktækt yfir sumartímann einum til tveimur dögum eftir að meira mældist af brennisteinsvetni í lofti og einnig hjá fólki yfir áttræðu óháð árstíð sama dag eða daginn eftir aukninguna.
Ragnhildur segir að eldri rannsóknir hafi gefið vísbendingar um að samband væri á milli þessara þátta en ekki hafi fengist nein afgerandi niðurstaða. Á Íslandi sé til góður gagnagrunnur yfir mælingar frá Umhverfisstofnun og því hafi hún ákveðið að ráðast í rannsóknina.
„Þá kom í ljós að það var samband á milli þessara þátta. Það er ekki hægt að alhæfa eitthvað út frá einni rannsókn. Þessi rannsókn gefur vísbendingu um að það sé eitthvað að gerast og það þurfi að skoða þetta betur,“ segir Ragnhildur.
Sjálf vinnur hún nú að annarri rannsókn á því hvort samband sé á milli aukningar í styrk brennisteinsvetnis, komu fólks á bráðamóttöku og innlagna á sjúkrahús. Þá rannsókn vonast hún til að birta fyrir lok þessa árs.
Almennt eru gildi brennisteinsvetnis afar lág á höfuðborgarsvæðinu að sögn Ragnhildar. Þau fari einstaka sinnum yfir 150 míkrógrömm á rúmmetra en fólk byrji að finna lyktina af menguninni við um 7 míkrógrömm. Það þurfti hins vegar aðeins litla aukningu í styrk brennisteinsvetnisins í lofti til þess að það sæist í fjölgun dauðsfalla. Aukningin í dauðsföllum nemur um 5% yfir sumartímann en rétt um 2% hjá eldra fólki. Ragnhildur segir erfitt að segja til um hvað geti valdið þessu sambandi.
„Erfitt er að alhæfa hvort að um raunverulegt orsakasamband sé að ræða en rannsóknir benda til að brennisteinsvetni geti haft áhrif á æðakerfið og öndunarfærasjúkdóma. Þar sem við vorum að skoða heildardauðsföll, öll dauðsföll nema slys, þá er brennisteinsvetni kannski ekki endilega að valda einhverjum sjúkdómi heldur er það frekar að ýta undir einkenni á sjúkdómum sem einstaklingarnir eru með fyrir,“ segir hún.
Ekki fannst samband á milli dauðsfallanna og aukningar í styrk brennisteinsvetnis á ársgrundvelli. Ragnhildur segir að styrkur brennisteinsvetnis í loftinu sé yfirleitt minni á sumrin en á veturna og því hafi komið á óvart að samband hafi komið fram þá. Ástæðan fyrir því gæti veri sú að aðrir þættir sem hafi sterkari áhrif, eins og kuldi yfir veturinn, geti falið áhrif sem koma fram vegna brennisteinsvetnis. Þegar kuldinn sé tekinn úr samhenginu byrji áhrif efnasambandsins að sjást.
Rannsóknin er sú fyrsta sem gerð er á Íslandi um samband styrks brennisteinsvetnis og dauðsfalla en áður hefur verið rannsakað hvort fylgni sé á milli notkunar hjarta-, æða- og astmalyfja og aukins styrks efnisins í andrúmslofti. Samband reyndist á milli aukinnar notkunar astmalyfja og brennisteinsvetnis þar.
„Við erum í raun mjög aftarlega á merinni á Íslandi með að skoða áhrif loftmengunar á heilsu. Norðurlöndin eru miklu duglegri en þau eru aftur á móti ekki með þetta brennisteinsvetni sem við erum með,“ segir Ragnhildur.
Rannsókn Ragnhildar og félaga á sambandi dauðsfalla og brennisteinsvetnis