NASA notar Ísland sem bækistöð

Flugvél NASA hefur sig á loft í Palmdale í Kaliforníu …
Flugvél NASA hefur sig á loft í Palmdale í Kaliforníu þar sem hún er yfirleitt staðsett. NASA Photo / Carla Thomas

Sérútbúin flugvél á vegum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA hóf sig á loft frá Keflavíkurflugvelli í gær til að rannsaka vindafar við Grænland og Ísland. Bækistöðvar vélarinnar verða í Keflavík á meðan á rannsóknunum stendur en þær tengjast meðal annars hnattrænni hlýnun.

Í frétt á vef NASA kemur fram að DC-8-flugvél NASA hafi hafið rannsóknir sínar í gær. Markmið rannsóknanna er að afla upplýsinga um núverandi vindafar við norðurskautið inn í veðurlíkön og afla gagna áður en loftslagsrannsóknagervitungli evrópsku geimstofnunarinnar ESA verður skotið á loft á næsta ári. Það á að gera vísindamönnum betur kleift að búa til flókin líkön um veður og loftslag jarðarinnar.

Flugvélin á aðallega að afla upplýsinga um vindinn við norðurskautið nálægt Grænlandi og Íslandi. Bæði ESA og NASA hafa sérstakan áhuga á þessum upplýsingum vegna áframhaldandi hlýnandi loftslags á norðurskautinu og minnkandi myndun hafíss.

Með í för verður einnig flugvél frá þýsku loft- og geimstofnuninni DLR sem mun gera sínar eigin athuganir með frumgerðir af mælitækjum sem verða í gervitungli ESA.

Frétt NASA af rannsóknarfluginu við Ísland

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert