Höfin þenjast hraðar út

Bráðnun íss á Suðurskautslandinu og víðar veldur meðal annars hækkandi …
Bráðnun íss á Suðurskautslandinu og víðar veldur meðal annars hækkandi yfirborði sjávar á jörðinni. AFP

Yfirborð sjávar hækkar hraðar en áður var talið samkvæmt nýrri rannsókn á eldri gögnum. Í ljós kom að vísindamenn höfðu ofmetið yfirborðshækkun sem átti sér stað á 10. áratug síðustu aldar en vanmetið þá sem hefur orðið frá aldamótum. Niðurstaðan er í samræmi við loftslagslíkön loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Rannsóknin birtist í tímaritinu Nature Climate Change á mánudag en hún sýnir að yfirborð sjávar hefur hækkað hraðar undanfarin fimmtán ár. Á sama tímabili hafa vísindamenn gert athuganir sem sýna að stórar ísþekjur jarðarinnar eins og á Grænlandi og á Vestur-Suðurskautslandinu hopa hratt.

Fyrri athuganir höfðu bent til þess að örlítið hafi hægst á hækkuninni síðustu árin. Áströlsku vísindamennirnir sem stóðu að rannsókninni fóru hins vegar yfir gögn úr flóðmælum og gervihnöttum síðustu áratuga. Með nákvæmari gögnum komust þeir að raun um hækkunin hafi verið vanmetin frá aldamótum en ofmetin á síðasta áratugi síðustu aldar.

Nýju tölurnar benda til þess að yfirborð sjávar hafi hækkað um 2,6-2,9 millímetra á ári að meðaltali undanfarna tvo áratugi. Það er í samræmi við spár loftslagsnefndar SÞ.

„Hröðunin er einni í samræmi við það sem við bjuggumst við í ljósi meira framlags frá Vestur-Suðurskautslandinu og Grænlandi,“ segir Christoper Watson, landmælingasérfræðingur við Háskólann í Tasmaníu sem er einn höfunda rannsóknarinnar, við The Washington Post.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka