Reyna að sigla á ljósinu

Teikning af sólarseglinu sem stendur til að prófa á næsta …
Teikning af sólarseglinu sem stendur til að prófa á næsta ári. Josh Spradling / The Planetary Society

Sú hugmynd um að hægt sé að sigla seglum þöndum fyrir sólvindi í geimnum hefur lengi verið til umræðu á meðal vísindamanna. Lítið gervitungl á vegum bandarísku stjarnvísindasamtakanna Planetary Society mun reyna hugmyndina síðar í þessum mánuði.

Kenningin er sú að hægt sé að knýja geimför með sólvindi með því að breiða út gríðarstór „segl“ líkt og seglskip á jörðinni nota vind til að fleyta sér áfram. Þó að hver og ein eind í sólvindinum hreyfi aðeins smávægilega við seglinu, og geimfari sem væri tengt við það, þá safnast þegar saman kemur.

Sé seglið nægilega stórt, hundruð og jafnvel þúsundir fermetrar að flatarmáli, væri mögulega hægt að knýja geimför framtíðarinnar á þennan hátt. Þó að hröðunin væri lítil með seglinu þá gæti þetta verið afar hagkvæm leið þar sem geimfarið þyrfti ekki að geyma neinar birgðir eldsneytis fyrir leiðangur sinn.

Lítið gervitungl, sem er á stærð við brauðhleif, verður skotið á loft með Atlas V-eldflaug 20. maí en þá er ætlunin að láta reyna á hugmyndina. Að þessu sinni er markmiðið aðallega að opna seglin en gervitunglið mun ekki komast á nógu háa sporbraut um jörðu til að sjá hvort það geti siglt með sólvindinum. Gervitunglið hefur hlotið nafnið LightSail.

Ætlunin er að senda annað stærra far á hærri braut um jörðu á næsta ári með rúmlega 32 fermetra segli til að láta raunverulega á hugmyndina reyna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn láta reyna á kenninguna en bæði bandaríska geimvísindastofnunin NASA og japanska geimstofnunin hafa gert tilraunir með sólarsegl.

Frétt bandaríska ríkisútvarpsins af tilrauninni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert