Getur stuðlað að auknu flugöryggi

Eldgosið í Grímsvötnum.
Eldgosið í Grímsvötnum. mbl.is/RAX

Ný rannsókn á vegum breskra og íslenskra vísindamanna, sem varpar nýju ljósi á stærð gosöskuagna og dreifingu þeirra í lofthjúpnum, gæti haft veruleg áhrif á forspár um hvar flugvélum er óhætt að fljúga í kjölfar öskugosa og þannig stuðlað að auknu flugöryggi.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar í nýjasta hefti vísindatímaritsins Atmospheric Measurement Techniques sem kemur út í dag, að því er fram kemur í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

„Eins og kunnugt er höfðu gosin í Eyjafjallajökli 2010 og í Grímsvötnum 2011 mikil áhrif á flugumferð í Evrópu og yfir Norður-Atlantshafi þar sem fresta þurfti hundruðum flugferða vegna ótta flugmálayfirvalda við áhrif gosöskunnar á flugvélahreyfla og óvissu um dreifingu gosöskunnar.

John A. Stevenson, sérfræðingur við Jarðvísindadeild Edinborgarháskóla, og Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, ásamt samstarfsfólki þeirra í jarðvísindum og loftslagsvísindum við Edinborgarháskóla, Háskólann í Leeds og Bresku veðurstofuna hafa á undanförnum árum rannsakað ösku úr gosunum í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum, sem safnað var á Bretlandseyjum, með það fyrir augum að bera hana saman við innrauðar mælingar á gosöskuskýjum sem gerðar voru með gervihnöttum á meðan á gosunum stóð.

Hópurinn skoðaði einnig gömul öskusýni sem sótt voru í mýrasvæði í Skotlandi, Írlandi og Jórvíkurskíri og sýni úr Öskjugosinu 1875 sem safnað var í Noregi þegar öskufallið varð. Markmiðið var m.a. að reyna að bæta þær aðferðir sem notaðar eru til að meta þéttleika gosösku, varpa skýrara ljósi á stærð öskuagnanna og hversu langt þær geti borist með vindum.

Rannsóknirnar leiddu í ljós að öskukornin sem berast til Evrópu frá íslenskum sprengigosum eru mun stærri en líkanútreikningar byggðir á gervihnattaathugunum gera ráð fyrir. Athuganir sýna að allt að 125 mikrómetra öskuagnir hafa borist með gosmökkum íslenskra sprengigosa (sbr. Eyjafjallajökulsgosið 2010) til Bretlandseyja, Skandinavíu og Vestur-Evrópu.

Með aðstoð hermunarlíkana kannaði hópurinn enn fremur hversu vel mismunandi stórar öskuagnir komu fram á gervihnattaskynjurum sem notaðir eru til að fylgjast með gosösku. Niðurstöðurnar sýna að skynjararnir vanmeta meðalstærð og massa öskuagna í skýinu um allt að 50%. Það gefur auga leið að slíkt vanmat getur haft alvarlegar afleiðingar þegar meta á hvort loka eigi tilteknu svæði fyrir flugumferð,“ segir í tilkynningunni.

Þorvaldseyri með eldgosið í Eyjafjallajökli í baksýn
Þorvaldseyri með eldgosið í Eyjafjallajökli í baksýn mbl.is/Golli
Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert