Geimfarar eru ekki bara fulltrúa heimalanda sinna heldur allra jarðarbúa þegar þeir halda út í geiminn. Nemandi við hönnunarskóla í Stokkhólmi hefur nú hannað fána fyrir jörðina sem fulltrúar mannkynsins geta notað í framtíðinni. Hann á að minna jarðarbúa á að þeir deila jörðinni óháð landamærum.
Oskar Pernefeldt hannaði fánann sem hluta af lokaverkefni sínu við Beckmans-hönnunarskólann í Stokkhólmi. Á honum eru sjö hringir sem krækjast hver í annan á bláum grunni. Sjálfur segir Pernefeldt að hringirnir myndi blóm sem tákni lífið á jörðinni. Þeir tengist saman eins og allt tengist saman á jörðinni beint eða óbeint.
„Blái grunnurinn táknar vatn sem er nauðsynlegt fyrir líf, líka vegna þess að höf þekja næstum allt yfirborð jarðarinnar. Ytri hringir blómsins mynda hring sem væri hægt að sjá sem tákn fyrir jörðina og blái grunnurinn gæti táknað alheiminn,“ segir Pernefeldt.
Fáninn var einnig hannaður með geimkönnun í huga enda séu geimfarar fulltrúar allra jarðarbúa. Sameiginlegt tákn fyrir þá eigi að minna fólk á að það deili jörðinni óháð landamærum, það ætti að annast hvert annað og reikistjörnuna sem við búum á.
Hluti af verkefninu eru myndir sem sýnir menn reisa fánann á Mars, flagga honum við hús sín og veifa honum á heimsmeistaramóti í knattspyrnu meðal annars.
Alþjóðlegi fáni plánetunnar jarðar