Hann heitir australopithecus deyiremeda, og er af nýuppgötvaðri tegund frummanns. Fundurinn varpar ljósi á okkar elstu forfeður, segja vísindamenn í grein sem birt er í nýjasta tölublaði Nature.
Í greininni kemur fram að tennur og kjálkabein sem fundust í Eþíópíu séu 2,2-2,5 milljón ára gömul. Vísindamennirnir segja að fundurinn ýti undir þá kenningu að nokkrar tegundir frummanns hafi verið uppi á sama tímabili.
Beinin sem fundust eru svipuð þeim og af hinum þekkta frummanni Lucy sem fundust árið 1974. Bein Lucyar eru talin 3,3 milljón ára gömul.
En þrátt fyrir líkindin segja vísindamenn að munurinn á beinabyggingunni sé það mikill að stærð og lögun að beinin sem fundust í Eþíópíu séu af sérstakri tegund frummanns, áður óþekktri. Þetta gefi til kynna að uppruni mannsins sé flóknari en áður var talið.
Beinin fundust í eyðimörk í Woranso-Mille, um 35 kílómetrum frá þeim stað þar sem Lucy fannst.
Sá sem leiddi rannsóknina er mannfræðingurinn Yohannes Haile-Selassie sem starfar við náttúruminjasafnið í Cleveland í Bandaríkjunum. Hann hefur rannsakað Woranso-Mille-svæðið í meira en áratug.
„Þessi nýja tegund er enn ein staðfesting á því að tegund Lucyar, australopithecus afarensis, var ekki eini frummaðurinn sem fór um Afar-svæðið í Eþíópíu á plíósen-tímabilinu,“ segir Haile-Selassie á heimasíðu safnsins. Hann segir að í það minnsta tvær tegundir, jafnvel þrjár, hafi verið uppi á sama tíma og búið í mikilli nálægð við hvor aðra.