Vonast eftir betri lyfjum

Á myndinni má sjá miðstöð verkjarannsókna í Danmörku. Í miðstöðinni …
Á myndinni má sjá miðstöð verkjarannsókna í Danmörku. Í miðstöðinni fer fram umfangsmikið rannsóknarstarf á taugabólgum hjá sykursjúkum undir stjórn dr. Páls Ragnars Karlssonar. mynd/Danish Pain Research Center

Doktor Páll Ragnar Karlsson lauk meistaragráðu í sameindalíffræði og doktorsgráðu í læknavísindum við Háskólasjúkrahúsið í Árósum í Danmörku árið 2013. Hann starfar nú sem vísindamaður á Miðstöð verkjarannsókna í Danmörku og stjórnar stórum rannsóknarverkefnum á sviði taugafræða. Rannsóknirnar eru tímafrekar, dýrar og yfirgripsmiklar en nái þær tilgangi sínum má gera ráð fyrir að skilningur geti aukist umtalsvert á taugasjúkdómum eins og taugabólgum og MND-sjúkdómnum. Með auknum skilningi er síðan auðveldara að þróa betri lyf.

Alvarlegur fylgisjúkdómur

Páll hefur yfirumsjón með stóru verkefni sem tengist taugaverkjum og taugabólgum hjá sykursjúkum. Miðstöð verkjarannsókna í Danmörku hefur verið að rannsaka og meðhöndla taugabólgur, en um afar óþægilegan kvilla er að ræða sem oftast er fylgisjúkdómur. Sjúkdómurinn kemur til dæmis í kjölfar sykursýki, krabbameinslyfjameðferðar HIV-smits eða annarra sjúkdóma. Taugabólgur eru almennt ólæknanlegar en verkjamiðstöðin sér um að greina verkina og slá á þá með verkjastillandi lyfjum. „Oft koma þó taugaþræðirnir aftur og einkennin minnka ef það tekst að lækna undirliggjandi sjúkdóminn sem var orsök þess að taugabólgan kom,“ segir Páll. „En það er langt í frá hægt í öllum tilvikum.“

Athygli vakti hjá rannsóknarmiðstöðinni að meirihluti sjúklinga sem voru að missa taugaþræði var sykursjúkur. Því var Páll fenginn til að rannsaka þennan hóp sérstaklega. „Allt að helmingur sykursjúkra fá fylgikvilla sem lýsir sér þannig að þau missa taugaþræðina, en taugaþræðirnir gera það að verkum að við getum fundið sársauka og skynjun. Þessir sjúklingar fá eitthvert form af taugabólgu. Margir sykursjúkra sjúklinga finnst eins og þeir gangi á bómull, finna ekki mun á heitu og köldu og sumir geta ekki drukkið heita eða kalda drykki. Þeir taugaþræðir sem eftir eru geta ekki skráð þessi skilaboð rétt. Um það bil fimmtungur til fjórðungur af öllum sykursýkissjúklingum fá verki ofan í þetta, en það eru sömu taugarnar sem skynja verki. Öll snerting sem vanalega er ekki sársaukafull verður sársaukafull. Sjúklingarnir geta til dæmis ekki sofið með sæng eða verið í sokkum, teygjan í sokknum þrýstir of mikið á húðina. Þeir taugaþræðir sem eru eftir í húðinni eru þá orðnir ofurnæmir svo það þarf minni ertingu til að sjúklingurinn finni sársauka,“ segir Páll. Hann segir markmið verkefnisins vera að tengja saman virkni tauga við útlit þeirra og komast að því hvað það sé í taugaþráðunum sem gefi einkennin.

Prófar efni úr chili-pipar

Sérstaklega er reynt að finna út hvers vegna sjúklingar sem fá sams konar niðurstöður úr húðsýni hafa ólík sjúkdómseinkenni. Þá er hann einnig að prófa áhrif kapsaísíns á sykursjúka, en það er virka efnið í chili-pipar, efnið sem gefur sterka bragðið. Vonar Páll að rannsóknir hans leiði til aukins skilnings svo að hægt verði að útbúa betri lyf.

Páll sinnir rannsóknunum í samstarfi við Oxford-háskóla í Bretlandi og Johns Hopkins-spítalann í Baltimore. Hann hlaut rausnarlegan rannsóknarstyrk en miðstöðin sem hann starfar hjá hefur einnig fengið styrk til rannsóknar á efninu. Í rannsóknarteymi Páls starfa 7-10 einstaklingar, einungis í þessu verkefni um taugabólgur hjá sykursjúkum.

„Á allri verkefnamiðstöðinni erum við samt í kringum 20 manns í heildina, sem komum á einn eða annan hátt að þessum rannsóknum,“ segir Páll. Hann segir Dani leggja talsvert meira upp úr taugarannsóknum en Íslendinga, en lítil vitneskja virðist vera meðal íslenskra lækna um þessi einkenni. Algengt sé að sjúklingar á Íslandi leiti til Páls út af taugabólgum þar sem þeim finnist þeir mæta skilningsleysi og úrræðaleysi hér á landi.

Rannsakar mýs með MND

Páll kemur einnig að rannsókn taugahrörnunarsjúkdómsins MND. Rannsóknin fer fram með þeim hætti að húðsýni er tekið frá erfðabreyttum músum sem sýktar hafa verið með MND-sjúkdómnum. Stofnfrumur eru svo ræktaðar úr sýnunum og fleiri hundruð efna prófuð á frumurnar. Í raun er verið að skoða hvort frumurnar líti betur út eftir á og ef svo er er viðkomandi efni rannsakað og prófað áfram. „Við endum svo vonandi með lista yfir 10, 20, 30 efni sem okkur finnst lofa góðu. Þá tökum við sýni frá MND-sjúklingum og ræktum upp stofnfrumur frá þeim og stjórnum þeim svo þær verði að taugafrumum og prófum þessi lofandi efni á þeim.

Ef við erum mjög heppnir endum við með eitt til tvö efni sem við getum prófað aftur og gert rannsóknir með,“ segir Páll. Hann segir ferlið með sjúklingana hið sama og með mýsnar. Um það bil 10% af MND-sjúklingum hafi MND út af erfðagalla en þessar framleiddu mýs hafa þennan sama erfðagalla og mennskir sjúklingar. „Þær eiga þá erfitt með gang, geta ekki borðað og deyja svo nokkra mánaða gamlar vegna þess að vöðvarnir verða það máttlausir að þær hætta að geta andað, rétt eins og tilfellið er hjá sjúklingunum,“ segir Páll.

Hann gerir ráð fyrir að rannsóknin taki að lágmarki þrjú til fjögur ár, en hún fer fram á Háskólasjúkrahúsinu í Árósum. Páll fékk til liðs við sig íslenskan læknanema, Helga Kristjánsson, og vonast þeir til að geta fundið út heppilegt efni sem nota megi í lyf fyrir MND-sjúklinga.

Stærsta MND-verkefni í heimi

„Svo er annað MND-verkefni sem við erum að vinna að líka. Við erum að aðstoða MND-félagið á Íslandi, þetta er stærsta MND-verkefni heims og mörg lönd taka þátt. Markmiðið er að safna upplýsingum frá 15 þúsund MND-sjúklingum. Það eru tekin blóðsýni úr sjúklingunum og gerð svokölluð fullraðgreining á þessum sjúklingum. Með þessu er reynt að finna fleiri gen sem valda því að fólk fær MND,“ segir Páll. Löndin safna öll blóðsýnum til að gera greininguna, en mikilvægt er að fá stórt úrtak. Öllum sýnum er svo safnað í gagnabanka sem vinnur úr þeim.

Páll segir kosti þessarar stóru rannsóknar fyrst og fremst felast í því að finna öll gen sem valdi MND, en nú er aðeins vitað um hluta þeirra. Takist að finna öll genin sem valda sjúkdómum verði auðveldara að greina sjúkdóminn og skilja, en það muni auðvelda ferlið við að búa til lyf við sjúkdómnum. Eina lyfið sem til er fyrir MND-sjúklinga heitir Riluzole, en það lengir líf sjúklinganna að meðaltali um þrjá mánuði.

Páll Ragnar Karlsson.
Páll Ragnar Karlsson.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert