Lögleiðing kannabis í læknisfræðilegum tilgangi hefur ekki leitt til aukinnar neyslu á meðal unglinga í Bandaríkjunum. Það er niðurstaða rannsóknar sem birtist í nýjasta tölublaði læknatímaritsins Lancet Psychiatry. Rannsóknin var framkvæmd við Columbia-háskóla.
Deborah Hasin, prófessor í smitsjúkdómum, leiddi teymi sem rannsakaði gögn yfir kannabisneyslu síðustu 24 árin í 48 ríkjum Bandaríkjanna. Segir í niðurstöðunni að í þeim ríkjum þar sem kannabis var lögleitt í læknisfræðilegum tilgangi hafi neysla efnisins þegar verið hærri en annars staðar. Hins vegar hafi lögleiðingin sjálf ekki leitt til aukinnar neyslu.
„Þetta vekur samt að einhverju leiti upp aðrar áhyggjur, því kannabis hefur skaðvæn áhrif og það ætti að vera algjört forgangsatriði að komast að því hvað það er sem leiðir til neyslu unglinga á efninu,“ segir Hasin.
Í yngstu hópunum kom í ljós að neyslan dróst saman í þeim ríkjum þar sem kannabis var lögleitt. Telur Hasin ástæðuna vera að það séu minni líkur á að yngstu unglingarnir geri sér grein fyrir því að kannabis sé einnig notað í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum. Eldri unglingarnir séu hins vegar meðvitaðir um áhrif efnisins. Önnur ástæða segir hún geta verið að foreldar barnanna hafi meiri áhrif á yngri unglingana.
Kevin Hill, læknir sem starfar við áfengis- og fíkniefnasvið við McLean-spítalann í Massachusetts, skrifar í athugasemd í greininni:
„Flestir nota það sem rök gegn lögleiðingu kannabis í læknisfræðilegum tilgangi, að þá fara fleiri að nota það, sérstaklega unglingar. Hasin og rannsóknarfélagar hennar gerðu einnig ráð fyrir því þegar rannsóknin hófst en hin vel útfærða vísindalega rannsókn þeirra gefur aðra niðurstöðu. Þessi rannsókn sýnir hversu mikilvægt það er að rökstyðja kenningar með greinargóðum rannsóknum, áður heilbrigðisstefnu er breytt.“
Sjá frétt The Guardian