Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir, yfirframleiðandi hjá þróunarstúdíóinu DICE, fékk það ánægjulega verk að kynna „Star Wars: Battlefront“á tölvuleikjasýningunni E3 á dögunum. Þar sýndi hún meðal annars fyrsta myndskeiðið sem hefur birst úr leiknum sjálfum.
„Star Wars: Battlefront“ er væntanlegur um miðjan nóvember en hann er einn þeirra leikja sem beðið er eftir með hve mestri eftirvæntingu á þessu ári. Þróunarstúdíóið DICE þar sem Sigurlína vinnur er í eigu tölvuleikjarisans EA.
„Ég man eftir að hafa leikið mér með gömlu leikfangafígúrurnar eða fest þvottaklemmu við tússpenna til að búa til geislabyssu svo að ég gæti hlaupið um og skotið leysigeislum á ímyndaða Stormsveitarmenn. Í dag eru tölvuleikir langbesti staðurinn til að gleyma sér algerlega og taka þátt í Stjörnustríði,“ sagði Sigurlína þegar hún kynnti leikinn.
Lofaði hún því að spilararnir myndu fá tækifæri til að sökkva sér ofan í raunsannan og stórglæsilegan Stjörnustríðsheim. Þegar leikmenn fljúga X-vængjum séu það raunverulegar X-vængjur og þeir geti láti alla draumóra sína um Stjörnustríð rætast.
Að svo búnu sýndi Sigurlína fyrsta myndskeiðið sem birt hefur verið úr spilun leiksins en áður hafði aðeins stikla um leikinn verið sýnd opinberlega. Þar sést orrusta á ísplánetunni Hoth bæði frá sjónarhóli uppreisnarmannanna og hermanna keisarans illa.
„Spilum núna Stjörnustríð!“ sagði Sigurlína. Kynningu hennar má sjá í myndbandinu hér fyrir neðan en hún byrjar þegar ein klukkustund og þrettán mínútur eru liðnar af því.
Fyrri frétt mbl.is: Vinnur í Stjörnustríðsheiminum