Gasvinnsla með svonefndu bergbroti veldur „umtalsverðri“ ógn við heilsu manna og dýralíf og Evrópusambandið ætti að stöðva slíka vinnslu á meðan lagaramma er komið utan um iðnaðinn. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu bresku samtakanna CHEM Trust sem rannsaka áhrif efnasambanda á menn og dýr.
Rannsókn samtakanna bendir til þess að þau efni sem dælt er niður í jörðina við gasvinnslu með bergbroti séu eitruð og krabbameinsvaldandi. Þau geti mengað loft, grunnvatn og yfirborðsvatn og ógnað dýralífi. Bresk lög sem ná utan um slíka vinnslu séu verulega gölluð og áform ríkisstjórnar íhaldsmanna um að stórauka gasvinnslu með bergbroti geti haft alvarleg áhrif á heilsu manna.
Sum þeirra efna sem gasfyrirtækin noti hafi verið tengd við brjósta-, blöðruháls- og eistnakrabbamein auk hjartasjúkdóma. Krefjast skýrsluhöfundar þess að fyrirtækin upplýsa hvaða efni þau hyggist nota til að brjóta gas úr leirsteini. Enn er farið með innihald þess sem fyrirtækin dæla ofan í jörðina sem leyndarmál.
New York varð fyrsta ríki Bandaríkjanna sem hefur umtalsverðar birgðir leirsteinsgass (e. shale gas) til þess að banna vinnslu þess með bergbroti af heilsufarsástæðum. Vinnsluaðferðin hefur verið afar umdeild bæði þar og í Bretlandi.