Dómstóll í Haag hefur dæmt loftslagsáætlun hollenskra stjórnvalda ólöglega og skipað þeim að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum um 25% á næstu fimm árum. Dómurinn þykir marka tímamót en með honum var fallist á að hollensk stjórnvöld hefðu gerst sek um vanrækslu með því að grípa ekki til nægilegra aðgerða gegn loftslagsbreytingum.
Málið var höfðað fyrir hönd 886 stefnenda sem Urgenda-hreyfingin safnaði saman. Hún berst fyrir því að Holland verði sjálfbært land sem fyrst. Stefndu þau hollenska ríkinu fyrir að vanrækja skyldur sínar með því að stuðla vísvitandi að því að hlýnun jarðar verði meiri en 2°C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu. Það er það markmið sem þjóðir heims hafa sett sér til að koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftslagsbreytinga.
Dómararnir komust að þeirri niðurstöðu að stefna hollenskra stjórnvalda um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um aðeins 14-17% miðað við árið 1990 fyrir árið 2020 væri bókstaflega ólögleg. Málið er það fyrsta sem höfðað er á grundvelli mannréttinda og skaðabótaréttar sem varðar skaða af völdum loftslagsbreytinga.
Hans Hofhuis, einn dómaranna, sagði að hættan af loftslagsbreytingum væri alvarleg og að hollensk stjórnvöld hefðu viðurkennt hana með alþjóðlegum sáttmálum. Þau gætu ekki og ættu ekki að skýla sér á bak við þá staðreynd að lausn vandans væri ekki eingöngu á forræði Hollendinga.
„Allur samdráttur á losun stuðlar að því að koma í veg fyrir hættulegar loftslagsbreytingar og sem þróað ríki ætti Holland að taka forystu í þessum málum,“ sagði Hofhuis.
Niðurstaðan fór jafnvel fram úr væntingum Urgenda og gæti haft fordæmisgildi fyrir sambærileg mál sem hreyfingin hefur haft frumkvæði að því að höfða annars staðar eins og í Belgíu, að sögn Pier Vellinga, formanns Urgenda en hann var einn þeirra sem lagði til 2°C hámarkið árið 1989.
„Við höfðum talið að dómskerfið vildi ekki skipta sér af pólitískum rökræðum en vísindalegu sannanirnar eru svo sterkar og hættan er svo mikil að dómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ríkið sé að bregðast í því að verja þegna sína á viðunandi hátt gegn áhrifum loftslagsbreytinga,“ segir Vellinga.
Frétt The Guardian af dómi hollenska dómstólsins