Sporin endast í milljón ár

Harrison Schmitt athafnar sig við jeppan sem hann og Eugene …
Harrison Schmitt athafnar sig við jeppan sem hann og Eugene Cernan notuðu í síðustu mönnuðu tunglferðinni í desember 1972. Af Stjörnufræðivefnum

Aðeins tólf menn hafa nokkru sinni stigi fæti á ann­an heim. Einn þess­ara manna, Harri­son Schmitt, deildi reynslu sinni af því að spranga um á meðal myrkra mána­fjalla á fyr­ir­lestri í Há­skól­an­um í Reykja­vík í vik­unni. Hann seg­ir þjálf­un sem tungl­far­arn­ir fengu á Íslandi hafa skipt sköp­um.

Schmitt var hluti af Apollo 17, síðasta mannaða leiðangr­in­um til tungls­ins, og dvaldi í þrjá daga á yf­ir­borði mán­ans í des­em­ber árið 1972. Hann og Eu­gene Cern­an eru síðustu menn­irn­ir sem stigu fæti á tunglið - enn sem komið er. Tungl­far­inn er stadd­ur hér á landi í tengsl­um við að fimm­tíu ár eru liðin frá því að hann og fé­lag­ar hans í Apollo-verk­efn­inu komu hingað til lands til æf­inga árin 1965 og 1967.

Í fyr­ir­lestri sem Schmitt hélt í Há­skól­an­um í Reykja­vík í gær fyr­ir full­um sal lék hann á als oddi. Frá­sögn­ina af æf­ing­un­um á Íslandi og sögu­legri ferðinni til tungls­ins skreytti hann stutt­um gam­an­sög­um af uppá­kom­um og for­vitni­leg­heit­um þess að ferðast svo fjarri þeim aðstæðum sem eru mann­kyn­inu eðlis­læg­ar. Mælska Schmitt þarf ekki að koma á óvart enda sat hann í öld­unga­deild Banda­ríkjaþings á sín­um tíma fyr­ir re­públík­ana.

Æfðu einnig í hita­belt­is­frum­skógi fyr­ir tungl­för­ina

Tungl­far­arn­ir voru ekki vís­inda­menn held­ur yf­ir­leitt orr­ustuþotuflug­menn sem voru þjálfaðir til að fljúga til tungls­ins. Raun­ar varð Schmitt fyrsti eig­in­legi vís­indamaður­inn til að fara til tungls­ins en hann er jarðfræðing­ur. Af þess­um sök­um þurfti að veita flug­mönn­un­um und­ir­stöðuþekk­ingu í jarðfræði til að þeir gætu valið sýni af mána­grjóti til að færa með sér heim. Þá þótti Askja og Veiðivötn til­val­inn staður til að líkja eft­ir lands­lagi og jarðfræði tungls­ins.

Schmitt sagði að Ísland hefði leikið lyk­il­hlut­verk þegar kom að því að velja sýn­in á tungl­inu. Neil Armstrong, fyrsta mann­in­um á tungl­inu, var kennt að velja sýn­in hér.

„Hann stóð sig gríðarlega vel. Á þeim tutt­ugu mín­út­um sem hann hafði þá var þetta lík­lega besta söfn­un sýna á tungl­inu á slík­um tíma sem nokk­ur hef­ur gert, þar á meðal ég sjálf­ur,“ sagði Schmitt.

Ísland var þó ekki eina landið sem tungl­far­arn­ir fóru til til að búa sig und­ir för­ina til tungls­ins. Schmitt sýndi meðal ann­ars mynd­ir frá frum­skóg­um Panama þar sem hann æfði og sagði að slík­ar æf­ing­ar hefðu einnig átt sér stað í eyðimörk­um. Það var hins veg­ar ekki vegna þess að menn byggj­ust við því að finna þykk­an gróður á eyðilegu yf­ir­borði tungls­ins.

„Á þeim tíma vor­um við ekki viss­ir um hversu ná­kvæm­ir við vær­um með lend­ing­una aft­ur á jörðinni. Þess vegna lærðum við að lifa af í mis­mun­andi um­hverfi!“ sagði Schmitt við hlát­ur áheyr­enda.

Titr­ing­ur­inn eins og að keyra að Öskju

Apollo-geim­förun­um var skotið á loft með gríðar­stór­um og öfl­ug­um Sat­urn V-eld­flaug­um. Schmitt lýsti því stutt­lega þegar hann og skips­fé­lag­ar hans tveir sátu ofan á þess­ari risa­vöxnu sprengju og biðu geim­skots­ins. Niðurtaln­ing­in var kom­in niður í þrjá­tíu sek­únd­ur þegar skot­inu var frestað og þurftu þeir að bíða í tvo og hálf­an tíma í geim­far­inu. Þó að menn­irn­ir hafi vitað að geim­skot­inu hafi verið frestað hafi þeir legið á bæn um að tölvurn­ar sem stjórnuðu því vissu af því líka.

„Það nær sann­ar­lega at­hygli manns!“

Þegar eld­flaug­in hóf sig svo á loft seg­ir Schmitt að hún hafi titrað ógur­lega, ekki ósvipað þeim titr­ingi sem þeir hafi fundið þegar þeir keyrðu veg­ina til að kom­ast að Öskju. Aðeins tíu mín­út­um síðar voru þeir komn­ir á braut um jörðu á tæp­lega 30.000 km/​klst.

Það var þá sem Schmitt tók eina fræg­ustu mynd Apollo-leiðangr­anna, mynd af jörðinni sem nefnd hef­ur verið „Bláa kúl­an“. Hún er enn þann dag í dag sú mynd sem NASA fær flest­ar beiðnir um að nota.

„Versta notk­un sem ég hef séð á þess­ari mynd var í aug­lýs­ingu frá [flug­fé­lag­inu] TWA í tíma­riti. Þeim fannst mynd­in ekki nógu spenn­andi eins og hún var og færðu Ástr­al­íu inn í Ind­lands­haf! Þetta var snemm­bú­in út­gáfa af Photos­hop,“ sagði Schmitt kím­inn.

Myndin sem Schmitt tók af jörðinni frá Apollo 17-geimfarinu árið …
Mynd­in sem Schmitt tók af jörðinni frá Apollo 17-geim­far­inu árið 1972. Hún hef­ur verið nefnd Bláa kúl­an. NASA/​Harri­son Schmitt

Ljóm­andi sól á biksvört­um himni

Schmitt seg­ist hafa verið bæði stolt­ur og fund­ist hann njóta for­rétt­inda þegar hann steig fyrst á tunglið. Hann hafi hins veg­ar verið svo ein­beitt­ur að þjálf­un sinni og að halda tíma­áætl­un sem var afar ströng að hann hafi í fyrstu ekki séð um­hverfið.

„Það var seinna þegar maður byrjaður að keyra um á jepp­an­um að maður fékk tæki­færi til að lit­ast um og skoða þenn­an mik­il­feng­lega dal sem við lent­um í. Hann var lýst­ur upp af ljóm­andi sól en him­in­inn er biksvart­ur því það er eng­inn loft­hjúp­ur. Það var erfitt að venj­ast því. Meira að að segja á Íslandi hafið þið blá­an him­in! Þetta var mik­il­feng­leg­ur staður til að vera á og einn sá fal­leg­asti sem ég hef komið til,“ sagði Schmitt.

Þeir Cern­an dvöldu í þrjá sól­ar­hringa á tungl­inu og þurftu að sofa í lend­ing­ar­far­inu. Schmitt seg­ir að sér hafi ekki orðið mikið um svefn. Nær þyngd­ar­leysi tungls­ins hafi verið þægi­legt, þrýst­ing­ur­inn hafi verið rétt nógu mik­ill til að þeim hafi fund­ist þeir liggja á hengi­rúm­um í geim­far­inu en ekki svo mik­ill að þeim hafi fund­ist þeir þurfa að bylta sér til. Sjálf­ur hafi hann hins veg­ar legið og hlustað á hljóðin í dæl­um og tækj­um geim­far­ins.

„Það síðasta sem maður vill heyra í geim­skipi er tor­kenni­legt hljóð!“ sagði Schmitt.

Vetn­is­vind­gang­ur

Grá­leitu yf­ir­borði tungls­ins lýsti Schmitt eins og rök­um sandi að þétt­leika og rykið sem þyrlaðist upp og þeir Cern­an gátu þefað af í stutta stund eft­ir að þeir fóru aft­ur inn í lend­ing­ar­farið hafi lyktað eins og byssu­púður.

Spor­in sem tungl­far­arn­ir skildu eft­ir sig á tungl­inu, bæði fót­spor og dekkja­för eft­ir jepp­ann, eru enn sjá­an­leg á yf­ir­borðinu og sagði Schmitt að þau verði þar enn eft­ir eina til tvær millj­ón­ir ára enda er ekk­ert loft eða vind­ur sem get­ur afmáð þau.

„Það er ekki ama­legt fyr­ir stjórn­mála­mann að skilja slík fót­spor eft­ir sig!“ grínaðist Schmitt.

Laxa­sal­at sem var á meðal vista tungl­far­anna var ekki vin­sæll rétt­ur en Schmitt sýndi mynd sem Ronald Evans, sem sveif í stjórn­fari Apollo 17-leiðang­urs­ins á braut um tuglið á meðan þeir Cern­an spókuðu sig þar um, tók af því í geim­far­inu. Vetn­isgas hafði lekið úr efn­arafal inn í umbúðirn­ar og myndaði ból­ur í matn­um þeirra sem þeir átu síðan.

„Eitt­hvert varð þetta gas svo að fara, skips­fé­lög­un­um til tölu­verðrar mæðu,“ sagði Schmitt og upp­skar hlát­ur gesta.

Harrison Schmitt á Þingvöllum þar sem Ólafur Örn Haraldsson kynnti …
Harri­son Schmitt á Þing­völl­um þar sem Ólaf­ur Örn Har­alds­son kynnti fyr­ir hon­um staðhætti. mbl.is/​Styrm­ir Kári

Tunglið mik­il­væg­ur viðkomu­staður á leiðinni til Mars

Áður en Apollo 17-leiðang­ur­inn hófst var ljóst að hann yrði sá síðasti og Apollo 18 og 19 höfðu verið slegn­ir af. Schmitt seg­ir í sam­tali við blaðamann mbl.is að hann hafi vitað að ein­hver tími kæmi til með að líða þar til menn færu aft­ur til tungls­ins en það hafi ekki hvarflað að hon­um að 43 ár liðu án þess að þeir sneru þangað aft­ur. Það sé hins veg­ar ekki óvenju­legt að slík hlé komi í land­könn­un.

„Lew­is og Clark könnuðu land í Banda­ríkj­un­um á fyrstu ára­tug­um 19. ald­ar en það var í raun ekki kannað frek­ar í 30-40 ár. Slík hlé eru ekki óvenju­leg. Ég kann ekki vel við það, en það er ekki óvenju­legt,“ seg­ir Schmitt.

Hann er afar bjart­sýnn á framtíð mann­kyns­ins og tel­ur það munu halda áfram að kanna geim­inn. Mars sé lík­lega næsta stóra skrefið í könn­un­ar­sög­unni en hann tel­ur að tunglið muni leika lyk­il­hlut­verk á leiðinni þangað.

„Við mun­um koma okk­ur upp bækistöð þar, nýta auðlind­irn­ar sem þar er að finna og hjálpa til við að þjálfa og und­ir­búa menn fyr­ir ferð til Mars,“ seg­ir Schmitt.

Harrison Schmitt í geimbúningi sínum. Hann var næstsíðasti maðurinn til …
Harri­son Schmitt í geimbún­ingi sín­um. Hann var næst­síðasti maður­inn til að stíga fæti á tunglið og til að yf­ir­gefa það. Skips­fé­lagi hans Eu­gene Cern­an var síðasti full­trúi mann­kyns­ins sem stóð á yf­ir­borði tungls­ins. NASA
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka