Aðeins tólf menn hafa nokkru sinni stigi fæti á annan heim. Einn þessara manna, Harrison Schmitt, deildi reynslu sinni af því að spranga um á meðal myrkra mánafjalla á fyrirlestri í Háskólanum í Reykjavík í vikunni. Hann segir þjálfun sem tunglfararnir fengu á Íslandi hafa skipt sköpum.
Schmitt var hluti af Apollo 17, síðasta mannaða leiðangrinum til tunglsins, og dvaldi í þrjá daga á yfirborði mánans í desember árið 1972. Hann og Eugene Cernan eru síðustu mennirnir sem stigu fæti á tunglið - enn sem komið er. Tunglfarinn er staddur hér á landi í tengslum við að fimmtíu ár eru liðin frá því að hann og félagar hans í Apollo-verkefninu komu hingað til lands til æfinga árin 1965 og 1967.
Í fyrirlestri sem Schmitt hélt í Háskólanum í Reykjavík í gær fyrir fullum sal lék hann á als oddi. Frásögnina af æfingunum á Íslandi og sögulegri ferðinni til tunglsins skreytti hann stuttum gamansögum af uppákomum og forvitnilegheitum þess að ferðast svo fjarri þeim aðstæðum sem eru mannkyninu eðlislægar. Mælska Schmitt þarf ekki að koma á óvart enda sat hann í öldungadeild Bandaríkjaþings á sínum tíma fyrir repúblíkana.
Tunglfararnir voru ekki vísindamenn heldur yfirleitt orrustuþotuflugmenn sem voru þjálfaðir til að fljúga til tunglsins. Raunar varð Schmitt fyrsti eiginlegi vísindamaðurinn til að fara til tunglsins en hann er jarðfræðingur. Af þessum sökum þurfti að veita flugmönnunum undirstöðuþekkingu í jarðfræði til að þeir gætu valið sýni af mánagrjóti til að færa með sér heim. Þá þótti Askja og Veiðivötn tilvalinn staður til að líkja eftir landslagi og jarðfræði tunglsins.
Schmitt sagði að Ísland hefði leikið lykilhlutverk þegar kom að því að velja sýnin á tunglinu. Neil Armstrong, fyrsta manninum á tunglinu, var kennt að velja sýnin hér.
„Hann stóð sig gríðarlega vel. Á þeim tuttugu mínútum sem hann hafði þá var þetta líklega besta söfnun sýna á tunglinu á slíkum tíma sem nokkur hefur gert, þar á meðal ég sjálfur,“ sagði Schmitt.
Ísland var þó ekki eina landið sem tunglfararnir fóru til til að búa sig undir förina til tunglsins. Schmitt sýndi meðal annars myndir frá frumskógum Panama þar sem hann æfði og sagði að slíkar æfingar hefðu einnig átt sér stað í eyðimörkum. Það var hins vegar ekki vegna þess að menn byggjust við því að finna þykkan gróður á eyðilegu yfirborði tunglsins.
„Á þeim tíma vorum við ekki vissir um hversu nákvæmir við værum með lendinguna aftur á jörðinni. Þess vegna lærðum við að lifa af í mismunandi umhverfi!“ sagði Schmitt við hlátur áheyrenda.
Apollo-geimförunum var skotið á loft með gríðarstórum og öflugum Saturn V-eldflaugum. Schmitt lýsti því stuttlega þegar hann og skipsfélagar hans tveir sátu ofan á þessari risavöxnu sprengju og biðu geimskotsins. Niðurtalningin var komin niður í þrjátíu sekúndur þegar skotinu var frestað og þurftu þeir að bíða í tvo og hálfan tíma í geimfarinu. Þó að mennirnir hafi vitað að geimskotinu hafi verið frestað hafi þeir legið á bæn um að tölvurnar sem stjórnuðu því vissu af því líka.
„Það nær sannarlega athygli manns!“
Þegar eldflaugin hóf sig svo á loft segir Schmitt að hún hafi titrað ógurlega, ekki ósvipað þeim titringi sem þeir hafi fundið þegar þeir keyrðu vegina til að komast að Öskju. Aðeins tíu mínútum síðar voru þeir komnir á braut um jörðu á tæplega 30.000 km/klst.
Það var þá sem Schmitt tók eina frægustu mynd Apollo-leiðangranna, mynd af jörðinni sem nefnd hefur verið „Bláa kúlan“. Hún er enn þann dag í dag sú mynd sem NASA fær flestar beiðnir um að nota.
„Versta notkun sem ég hef séð á þessari mynd var í auglýsingu frá [flugfélaginu] TWA í tímariti. Þeim fannst myndin ekki nógu spennandi eins og hún var og færðu Ástralíu inn í Indlandshaf! Þetta var snemmbúin útgáfa af Photoshop,“ sagði Schmitt kíminn.
Schmitt segist hafa verið bæði stoltur og fundist hann njóta forréttinda þegar hann steig fyrst á tunglið. Hann hafi hins vegar verið svo einbeittur að þjálfun sinni og að halda tímaáætlun sem var afar ströng að hann hafi í fyrstu ekki séð umhverfið.
„Það var seinna þegar maður byrjaður að keyra um á jeppanum að maður fékk tækifæri til að litast um og skoða þennan mikilfenglega dal sem við lentum í. Hann var lýstur upp af ljómandi sól en himininn er biksvartur því það er enginn lofthjúpur. Það var erfitt að venjast því. Meira að að segja á Íslandi hafið þið bláan himin! Þetta var mikilfenglegur staður til að vera á og einn sá fallegasti sem ég hef komið til,“ sagði Schmitt.
Þeir Cernan dvöldu í þrjá sólarhringa á tunglinu og þurftu að sofa í lendingarfarinu. Schmitt segir að sér hafi ekki orðið mikið um svefn. Nær þyngdarleysi tunglsins hafi verið þægilegt, þrýstingurinn hafi verið rétt nógu mikill til að þeim hafi fundist þeir liggja á hengirúmum í geimfarinu en ekki svo mikill að þeim hafi fundist þeir þurfa að bylta sér til. Sjálfur hafi hann hins vegar legið og hlustað á hljóðin í dælum og tækjum geimfarins.
„Það síðasta sem maður vill heyra í geimskipi er torkennilegt hljóð!“ sagði Schmitt.
Gráleitu yfirborði tunglsins lýsti Schmitt eins og rökum sandi að þéttleika og rykið sem þyrlaðist upp og þeir Cernan gátu þefað af í stutta stund eftir að þeir fóru aftur inn í lendingarfarið hafi lyktað eins og byssupúður.
Sporin sem tunglfararnir skildu eftir sig á tunglinu, bæði fótspor og dekkjaför eftir jeppann, eru enn sjáanleg á yfirborðinu og sagði Schmitt að þau verði þar enn eftir eina til tvær milljónir ára enda er ekkert loft eða vindur sem getur afmáð þau.
„Það er ekki amalegt fyrir stjórnmálamann að skilja slík fótspor eftir sig!“ grínaðist Schmitt.
Laxasalat sem var á meðal vista tunglfaranna var ekki vinsæll réttur en Schmitt sýndi mynd sem Ronald Evans, sem sveif í stjórnfari Apollo 17-leiðangursins á braut um tuglið á meðan þeir Cernan spókuðu sig þar um, tók af því í geimfarinu. Vetnisgas hafði lekið úr efnarafal inn í umbúðirnar og myndaði bólur í matnum þeirra sem þeir átu síðan.
„Eitthvert varð þetta gas svo að fara, skipsfélögunum til töluverðrar mæðu,“ sagði Schmitt og uppskar hlátur gesta.
Áður en Apollo 17-leiðangurinn hófst var ljóst að hann yrði sá síðasti og Apollo 18 og 19 höfðu verið slegnir af. Schmitt segir í samtali við blaðamann mbl.is að hann hafi vitað að einhver tími kæmi til með að líða þar til menn færu aftur til tunglsins en það hafi ekki hvarflað að honum að 43 ár liðu án þess að þeir sneru þangað aftur. Það sé hins vegar ekki óvenjulegt að slík hlé komi í landkönnun.
„Lewis og Clark könnuðu land í Bandaríkjunum á fyrstu áratugum 19. aldar en það var í raun ekki kannað frekar í 30-40 ár. Slík hlé eru ekki óvenjuleg. Ég kann ekki vel við það, en það er ekki óvenjulegt,“ segir Schmitt.
Hann er afar bjartsýnn á framtíð mannkynsins og telur það munu halda áfram að kanna geiminn. Mars sé líklega næsta stóra skrefið í könnunarsögunni en hann telur að tunglið muni leika lykilhlutverk á leiðinni þangað.
„Við munum koma okkur upp bækistöð þar, nýta auðlindirnar sem þar er að finna og hjálpa til við að þjálfa og undirbúa menn fyrir ferð til Mars,“ segir Schmitt.