Lífríki sjávar og milljónum jarðarbúa sem reiða sig á ávexti hafsins stendur veruleg ógn af því ef mönnum tekst ekki að halda hlýnun jarðar innan við 2°C með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við Ísland gæti súrnun og hlýnun sjávar valdið verulegum breytingum hjá fiskitegundum.
Grein um áhrif loftslagsbreytinga á höf jarðarinnar og afleiðingarnar fyrir lífríki og menn birtist í vísindaritinu Science. Þar er borið saman hvað er líklegt að gerist miðað við forsendur sem gefnar eru í skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, annars vegar miðað við óbreytta losun á gróðurhúsalofttegundum og hins vegar við verulegan samdrátt á losun.
Verði núverandi losun haldið áfram muni yfirborð sjávar vera 30 cm hærra við næstu aldamót, sýrustig sjávar 70% hærra og meðalhiti hans um 2°C hærri en ef gripið verður til aðgerða. Þar kemur fram að höfin hafa drukkið í sig um 90% af umframhita og 28% af þeim koltvísýringi sem hlotist hefur af brennslu manna á jarðefnaeldsneyti.
Margar sjávartegundir flytjist búferlum vegna hlýnunar sjávar. Flutningarnir geti numið um 400 kílómetrum á áratug. Það geti haft mikil áhrif á sjávarútveg í heiminum. Í hafinu við Ísland gera skýrsluhöfundar ráð fyrir áframhaldandi flakki fiskistofna auk þess sem að þeir gætu aukið lífmassa sinn, þ.e.a.s. fiskunum gæti fjölgað og þeir stækkað.
Samanlögð áhrif hlýnunar og súrnunar sjávar koma sérstaklega illa við kóralrif jarðarinnar. Þau eru híbýli nærri því fjórðu hverrar dýrategundar sem býr í höfunum. Hundruð milljónir manna reiði sig á vistkerfi kóralrifja fyrir fæðu og ferðamennsku.
Hrönn Egilsdóttir, doktorsnemi við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, rannsakar nú súrnun sjávar við Ísland. Hún segir Ísland liggja á mörkum tveggja öfga þegar kemur að súrnun og hlýnun sjávar vegna losunnar manna á gróðurhúsalofttegundum. Suður af landinu sé gert ráð fyrir minni breytingum. Þannig verði hlýnunin þar með því minnsta í heiminum. Norður af landinu sé hins vegar gert ráð fyrir einhverri mestu hlýnun og súrnun sjávar á jörðinni á sama tímabili.
Áætlað er að höfin hafi tekið upp um fjórðung af því koltvíoxíði sem menn hafa dælt út í lofthjúp jarðar frá iðnbyltingunni. Við það súrnar sjórinn en það hefur áhrif á dýr sem mynda kalk eins og kórala, ígulker, kræklinga og kalþörunga svo dæmi séu tekin.
Spurð um áhrif fyrirséðrar súrnunar sjávar fyrir lífríki sjávar við Ísland segir Hrönn að mikil óvissa ríki um það. Bæði hafi nær engar rannsóknir verið gerðar á breytingunum á lífríkinu og vistkerfin séu afar flókin. Í greininni sem birtist í Science kemur hins vegar fram að áhrifin geti orðið alvarleg fyrir átu sem er aðaluppistöðufæða fiskistofna sem Íslendingar veiða en einnig önnur dýr sem mynda fæðukeðjuna í hafinu.
„Þar sem Ísland á ofboðslega mikið undir í þessu máli þegar kemur að sjónum þá ættum við náttúrulega að vera í forystu við að berjast gegn þessum breytingum með því að minnka útblástur,“ segir Hrönn.
Súrnun sjávar sé hætt að vera vandamál framtíðarinnar og sé orðin vandamál nútímans. Á vesturströnd Bandaríkjanna hafi til að mynda orðið hrun í skelfisksrækt vegna súrnunar sjávar. Kalkmettun hafsins lækki samhliða súrnuninni sem hafi orðið til þess að ostrulirfur hafi ekki getað myndað skeljar.
Hrönn segir að líklegustu áhrif súrnunar sjávar á veiðistofna Íslendinga verði í gegnum fæðukeðjuna. Vegna skorts á rannsóknum viti menn enn ekki hvaða tegundir séu viðkvæmar fyrir breytingunum.
„Þetta er áhætta sem við ættum alls ekki að taka þar sem við höfum svona mikið undir,“ segir hún.
Frétt The Guardian af rannsókninni á áhrifum loftslagsbreytinga á vistkerfi sjávar