Breyti sólkerfinu til að lifa af

Loftsteinn springur í grennd við Chelyabinsk borg í Rússlandi í …
Loftsteinn springur í grennd við Chelyabinsk borg í Rússlandi í febrúar 2013. Loftsteinninn olli mikilli eyðileggingu og særði um 1.500 manns í þessu stærsta lofsteinahrapi í heila öld. memolition.com

Um milljón smástirni eru talin skera braut jarðarinnar en fram að þessu hafa menn aðeins fundið innan við 1% þeirra. Geimfarinn Rusty Schweickart segir enga spurningu um að smástirni rekist á jörðina fyrr eða síðar. Það sé óábyrgt að gefa því ekki meiri gaum þegar hægt sé að koma í veg fyrir það.

Schweickart var flugmaður Apollo 9 en það var fyrsta tilraunin með mannaða tunglferju áður en menn lentu fyrst á tunglinu. Hann hefur verið staddur á Íslandi síðustu daga á vegum Könnunarsafnsins á Húsavík í tilefni þess að fimmtíu ár eru liðin frá því að Apollo-geimfararnir komu fyrst til Íslands til þjálfunar.

Varnir gegn árekstrum smástirna á jörðina, líkt og þess sem grandaði risaeðlunum fyrir 65 milljón árum, hafa átt hug Schweickart undanfarna áratugi en hann stofnaði B612-sjóðinn ásamt öðrum árið 2002. Hann segist vilja breyta sólkerfinu aðeins til að auka lífslíkur mannanna á jörðinni.

„Það var í kringum 2001 sem um tuttugu manns, geimfarar, stjörnufræðingar og verkfræðingar hittust í Houston vegna þess að við höfðum áhyggjur af því að það hafði fundist mikið af nýjum smástirnum. Við höfðum fundið slatta af þeim en enginn var að gera neitt í því hvað við ættum að gera þegar eitt þeirra stefndi mögulega í árekstur. Okkur fannst það óábyrgt og að einhver þyrfti að byrja að hugsa út í það,“ segir Schweickart sem er enn afar sprækur þrátt fyrir að vera orðinn 79 ára gamall.

Þeir byrjuðu á því að velta því fyrir sér hvort eitthvað væri hægt að gera jafnvel þó að menn vissu að smástirni stefndi á jörðina. Fljótlega fékkst sú niðurstaða að menn réðu þegar yfir tækni til þess að breyta sporbraut smástirna til að koma í veg fyrir árekstur. Í kjölfarið stofnuðu þeir B612-sjóðinn, sem nefndur var eftir heimkynnum litla prinsins úr bók Antoine de Saint-Exupéry.

Hefði flatt út heila borg 

Um hundrað tonn af efni skella á jörðinni á hverjum sólahring sem menn sjá sem stjörnuhröp á himni. Það eru smástirni sem flest eru þá aðeins eins og sandkorn að stærð sem fuðra upp í lofthjúpi jarðar. Schweickart segir að í hverri viku rekist smástirni á stærð við körfubolta á jörðina og um það bil tvisvar á ári skelli smástirni á stærð við Volkswagen-bifreið á hana. Skemmst er að minnast loftsteinsins sem sprakk yfir rússnesku borginni Chelyabinsk í febrúar 2013 þar sem á annað þúsund manns slösuðust.

Af þeirri milljón smástirna sem áætlað er að skeri sporbraut jarðarinnar um sólina hefur bandaríska geimvísindastofnunin NASA aðeins uppgötvað á þrettánda þúsund, innan við eitt prósent. Af þeim hafa nú fundist 583 smástirni sem einhverjar líkur eru á að gætu rekist á jörðina. Nær engu fé sé varið til jarðvarna hjá stofnuninni og nú sé svo komið að ný smástirni finnist æ sjaldnar.

Ástæðan er sú að búið er að uppgötva flest stærstu smástirnin sem gætu rekist á jörðina og erfiðara er að finna þau minni. Smærri smástirni, allt niður í 40 metrar að stærð, gætu hins vegar grandað heilli borg ef þau lentu beint á henni.

„Það er afar ólíklegt en engu síður ef eitthvað eins og ef Tunguska-viðburðurinn [í Síberíu árið 1908] hefði átt sér stað yfir borg, í stað þess að fletja út 2.000 ferkílómetra af skógi, hefði hann flatt út allar byggingar og íbúa borgarinnar. Það eru um milljón slík fyrirbæri sem skera braut jarðar og gætu mögulega rekist á hana,“ segir Schweickart.

Tæki þúsund ár með núverandi afköstum

Schweickart bendir á að miðað við núverandi uppgötvunartíðni nýrra smástirna, um þúsund á ári, tæki það menn þúsund ár að finna öll smástirnin sem jörðinni gæti stafað ógn af. Þess vegna hóf B612-sjóðurinn söfnun fyrir þremur árum fyrir innrauðum geimsjónauka, sem hefur fengið nafnið Sentinel, Útvörðurinn, til þess að leita að minni smástirnum. Sú söfnun hefur gengið treglega.

Samband geimkönnuða (Association of Space Explorers), annar hópur sem Schweickart átti þátt í að stofna, skilaði skýrslu til Sameinuðu þjóðanna um hættuna og álitamál varðandi smástirnavarnir. Síðan þá hafa SÞ komið sér upp ráði um smástirnavarnir en Schweickart segir að hlutirnir gerist hægt.

Í fyrra héldu áhugamenn um smástirnavarnir alþjóðlegan smástirnadag (Asteroid Day) þar sem þekktir einstaklingar eins og Brian May, gítarleikari Queen og doktor í stjarneðlisfræði, lögðu meðal annars málefninu lið. Þúsundir manna skrifuðu undir yfirlýsingu um að lögð yrði áhersla á að finna fleiri fyrirbæri sem gætu rekist á jörðina.

„Til að setja pressu á geimstofnanirnar til að koma upp innrauðum sjónauka, svo við aukum uppgötvunartíðnina hundraðfalt svo við höfum einhverja möguleika á að vita af því ef eitthvað er á leiðinni og höfum tækifæri til að gera eitthvað í því. Stjórnmálamennirnir eiga hvort eð er eftir að klúðra þessu hjá SÞ þannig að við verðum líklega fyrir fyrstu tveimur smástirnunum sem við komum auga á!“ segir Schweickart sposkur. „En það verður að minnsta kosti byrjunin.“

Eins og botnlangauppskurður á fíl

Það hljómar líklega eins og eitthvað úr ótrúlegri vísindaskáldsögu að ætla sér að forða árekstri smástirnis við jörðina. Kjarnorkusprenging, eins og sýnd hefur verið í stórum Hollywood-myndum, væri hins vegar örþrifaráð sem yrði aðeins notað á stærri smástirni, segir Schweickart. Sprengjan yrði þá notuð til þess að breyta hraða smástirnis en ekki til að sprengja það í loft upp. 

Til þess að eiga mögulega á að rekast á jörðina þarf smástirni augljóslega að vera á sama stað og jörðin á sama tíma. Það tekur jörðina átta mínútur að ferðast vegalengd sem nemur þvermáli hennar. Ef menn gætu hraðað för smástirna eða hægt á henni um átta mínútur væri þannig hægt að forða árekstri.

Schweickart og félagar hafa lagt til aðferð sem er bæði gróf og nákvæm á sama tíma. Hægt væri að senda geimfar í nokkurs konar kamekaze-leiðangur og láta það rekast á smástirni sem stefndi á jörðina á mikilli ferð. Jafnvel þótt mikill munur væri á massa geimfarsins og smástirnisins myndi skriðþungi geimfarsins breyta hraða smástirnis um til dæmis einn tíunda úr sentimetra á sekúndu. Yfir tíu ára tímabil gæti það hins vegar breytt komutíma þess að braut jarðarinnar um þær mínútur sem til þyrfti.

Hann segir að þar sem menn vilji ekki aðeins ýta smástirninu frá jörðinni heldur koma í veg fyrir að það seinki árekstri aðeins um nokkur ár væri meiri nákvæmni einnig þörf. Henni myndu menn ná fram með því að senda annað geimfar, svonefndan þyngdartraktor, sem myndi leggjast upp að hlið smástirnisins. Þar myndi það dvelja í allt frá viku og upp í ár en þyngdaráhrifin sem það hefði á smástirnið myndi breyta hraða þess. Þannig fengjust einnig nákvæmar mælingar á þeirri breytingu sem menn hefðu gert á hraðanum.

„Ég segi stundum að ef ég vil gera botnlangauppskurð á fíl fer ég í gegnum skrápinn með keðjusög. Þegar ég kem inn vil ég nota skurðhníf,“ segir hann í litríku máli.

Stórpólitískar og flóknar afleiðingar

Þó svo að tæknilega væri hægt að breyta hraða smástirna til að forða árekstri við jörðina þá bendir Schweickart á að það feli í sér gríðarlega flókin heimspólitísk álitamál. Hverjir ákveði hvað eigi að gera, hvort eitthvað eigi að gera og hver eigi að greiða fyrir það. Stærsta málið gæti hins vegar verið í hvora áttina menn ákvæðu að beina smástirni.

Smástirni ferðast á sporbraut um sólina líkt og jörðin sem liggur á ákveðnum fleti. Ef braut smástirnis sker braut jarðarinnar getur það rekist á jörðina eftir línu sem liggur yfir jörðina. Með þeim aðferðum sem Schweickart og félagar hafa lagt til væri hægt að breyta hraða smástirnis þannig að það færi um punktinn þar sem brautir þess og jarðarinnar skerast aðeins áður eða eftir að jörðin fer um hann. Ómögulegt er að færa smástirnið upp eða niður fyrir brautarflöt þess.

Menn myndu reyna að hraða eða hægja á smástirninu til þess að það rækist ekki á jörðina. Ef það gengi hins vegar ekki fullkomlega eftir myndi tilraunin valda því að smástirnið rækist aðeins fyrr eða aðeins seinna á jörðina. Það gæti orðið til þess að smástirni sem stefndi á Atlantshafið myndi í staðinn rekast á annaðhvort Bandaríkin eða Evrópu eftir því í hvora áttina menn reyndu að hliðra því. Hver ætti að ákveða í hvora áttina ætti að reyna að ýta því og um leið hver tæki á sig áhættuna ef það tækist ekki sem skyldi?

„Það er það erfiðasta við þetta allt. Heimspólitískt séð er þetta mjög andstyggilegt,“ segir Schweickart.

Mögulegir árekstrarstaðir smástirnis við jörðina. Breytingar á hraða þess myndi …
Mögulegir árekstrarstaðir smástirnis við jörðina. Breytingar á hraða þess myndi breyta hvar það kæmi niður eða forðað árekstri alveg. Af bloggsíðu Rusty Schweickart

Breyti sólkerfinu örlítið til að lifa af

Engin spurning er um að smástirni mun rekast á jörðina fyrr eða síðar, að sögn Schweickart. Viljum við finna þau sem gætu drepið fjölmargt fólk þurfum við að finna milljón fyrirbæri en við þekkjum aðeins 12.000 fram að þessu. Þess vegna þurfi það að verða forgangsmál að uppgötva fleiri smástirni.

„Þetta er bara spurning um hvenær og það sem mikilvægara er, hvort við munum vita af því fyrir fram og nógu snemma til að geta komið í veg fyrir það. Við vitum að við getum gert eitthvað í því. Við getum stöðvað þessar náttúruhamfarir, því það er það sem þetta er, líkt og eldgos. Þú getur ekki stoppað eldgos en þú getur stoppað þetta. Þetta snýst um að breyta sólkerfinu okkar örlítið til þess að auka líkur okkur á að lifa af,“ segir Schweickart.

Bloggsíða Rusty Schweickart um jarðvarnir

Listi NASA yfir smástirni sem gætu rekist á jörðina

Heimasíða Asteroid Day

Heimasíða B612-sjóðsins

Rusty Schweickart, Apollo-geimfari og heiðursformaður B612-sjóðsins.
Rusty Schweickart, Apollo-geimfari og heiðursformaður B612-sjóðsins.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert