Þröngar og óþægilegar flugferðir hávaxinna farþega gætu heyrt sögunni til verði „snjallsæti“ fyrirtækisins B/E Aerospace að veruleika. Þannig yrðu sætin búin eins konar hjólum og hægt að færa þau lítillega með spjaldtölvu eða öðrum stjórnbúnaði sem væri í höndum áhafnarinnar.
„Á meðan farþegar eru í öllum stærðum og gerðum eru sætin oftast alveg eins, þannig að hávaxnir fullorðnir einstaklingar þurfa að sitja í sömu sætum og lítil börn,“ segir m.a. í tilkynningu frá hönnuðum sætanna. Hugmyndin er hins vegar að þegar vélin er nokkurn veginn full geti áhafnarmeðlimir notað stjórntækin og fært tiltekin sæti og þannig rýmt til fyrir fyrir hávaxnari farþega, án þess að þeir lágvaxnari sem fyrir aftan sitja finni fyrir því. Varan er þó enn á hugmyndastigi og er því ekki von á að sæti með hjólum verði komin í farþegaþotur á næstu misserum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem tækninni er beitt til að búa til aukið fótarými, en hinn svokallaði „verndari hnjáanna“ (e. knee defender) hefur nokkrum sinnum valdið vandræðum í flugum vestanhafs. Tækinu er smellt á sætið fyrir framan farþega og er þá ómögulegt að halla því aftur, við mismikla hrifningu þeirra sem í sætunum sitja.