„Orka til framtíðar“ er heiti gagnvirkrar orkuvísindasýningar sem var formlega opnuð almenningi í dag í gestastofu Ljósafossstöðvar í tilefni af 50 ára afmæli Landsvirkjunar. Þemu sýningarinnar er raforkan sjálf, hvaða áhrif hún hefur á okkur og samfélagið.
Gagarín og Tvíhorf arkitektar eru hönnuðir sýningarinnar og komu fjöldi fyrirtækja og sérfræðinga að sýningunni.
Fram kemur í tilkynningu frá Landsvirkjun, að sýningin sé gagnvirk með áherslu á leik og upplifun, þar sem eðli og eiginleiki raforku birtist í margvíslegum myndum.
„Sýningargestir eru leiddir inn í heim raforkunnar á nýjan og skapandi máta. Undirstöðuatriði rafmagnsfræðinnar eru útskýrð í gegnum einfaldar, skemmtilegar og fallegar tilraunir sem hafa leitt til mikilvægra skrefa í rafmagnssögunni. Auk þess fræðast gestir um helstu orkuvinnsluaðferðir Landsvirkjunar; vatnsaflsstöðvar, jarðvarmastöðvar og vindmyllur. Enn fremur er orkuvinnsla og orkunýting sett í víðara samhengi og þróunin í heiminum skoðuð í samhengi við mikilvæga þætti svo sem endurnýjanleika og sjálfbærni. Orkuauðlindir og nýting þeirra varðar alla Íslendinga og leitast verður við að opna augu gesta fyrir mikilvægi þess að hámarka afrakstur af orkulindunum með sjálfbærri nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.“
Þá segir, að Ljósafossstöð hafi verið gangsett árið 1937 og standi við Ljósafoss, útfall Úlfljótsvatns. Með tilkomu stöðvarinnar var framboð rafmagns fjórfaldað á höfuðborgarsvæðinu sem gerði íbúum kleift að nota rafmagnseldavélar í stað kolavéla. Þáttur í því að auka raforkunýtingu frá Ljósafossstöð var að bjóða íbúum höfuðborgarsvæðisins að fá eldavél frá Rafha í áskrift með rafmagninu.